Hoppa yfir valmynd
1. júlí 2015 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Alþingi samþykkti lög um Menntamálastofnun

Menntamálastofnun mun sinna þeim verkefnum sem Námsmatsstofnun og Námsgagnastofnun hafa sinnt auk þess sem stjórnsýsluverkefni verða flutt frá mennta- og menningarmálaráðuneyti til hennar.

Menntamalastofnun

"Stofnuninni er ætlað víðtækt hlutverk en það felst fyrst og fremst í því að stuðla að því að íslenskir nemendur fái notið bestu mögulegrar menntunar og styðja við aukin gæði og framfarir í menntamálum...Með frumvarpi þessu er leitast við að skerpa og styrkja stjórnsýslu menntamála, gæðastarf og þjónustu við skóla", sagði Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra meðal annars þegar hann mælti fyrir frumvarpi til laga um Menntamálastofnun. Frumvarpið var samþykkt mótatkvæðalaust.

Með stofnun Menntamálastofnunar verður til ein stjórnsýslustofnun á sviði menntamála sem sinnir verkefnum þvert á málaflokka en ekki aðeins að takmörkuðum hluta eins og verið hefur. Með því að fela einni stofnun að sinna verkefnum um menntamál verður til aukin sérþekking og heildstæður grunnur til að bæta þjónustu, auka gæði menntunar og efla stefnumótun í þessum málaflokki. Þannig skapast aukið svigrúm til að greina stöðu menntakerfisins og bregðast við með viðeigandi hætti.

Menntamálastofnun mun gegna mikilvægu hlutverki í íslensku menntakerfi og stuðla að framförum í þágu menntunar í samræmi við stefnu stjórnvalda auk þess að afla þekkingar, sem byggist á rannsóknum og alþjóðlegum viðmiðum. Með því að flytja verkefni úr ráðuneytinu til stjórnsýslustofnunar er ætlunin að ráðuneytið fái aukið svigrúm til að einbeita sér að því yfirstjórnunarhlutverki sem því er ætlað samkvæmt lögum og sinna stefnumótun í samræmi við ákvæði sérlaga á sviði menntamála. Að lokum ber að geta þess að réttaröryggi eykst í ýmsum tilvikum þar sem ákvarðanir, sem nú eru teknar af mennta- og menningarmálaráðuneytinu en verða framvegis teknar af Menntamálastofnun, verða kæranlegar til ráðuneytisins í samræmi við VII. kafla stjórnsýslulaganna.  Forstöðumaður Menntamálastofnunar er Arnór Guðmundsson.

  Ljósmynd: Yadid Levy / Norden.org

Nánar um Menntamálastofnun

Framsöguræða mennta- og menningarmálaráðherra

Frumvarpið


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira