Hoppa yfir valmynd
3. júlí 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Frumvarp um stöðugleikaskatt samþykkt samhljóða  

Alþingi samþykkti í dag frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra um stöðugleikaskatt, en þverpólitísk samstaða var um afgreiðslu þess í þinginu. Með nýjum lögum um stöðugleikaskatt er lögfestur einskiptis skattur í því markmiði að skapa forsendur fyrir losun þeirra fjármagnshafta sem komið var á hérlendis í kjölfarið á hruni fjármálakerfisins árið 2008.

Markmið laganna er að stuðla að losun fjármagnshafta, með efnahagslegan stöðugleika og almanahag að leiðarljósi, með skattlagningu sem ætlað er að mæta neikvæðum áhrifum í tengslum við uppgjör og efndir skattskyldra aðila í kjölfar slitameðferðar þeirra. Eining var um afgreiðslu frumvarpsins á Alþingi og frumvarpið samþykkt samhljóða.

Nýsamþykkt lög fela í sér að lagður verður 39% skattur á fjármálafyrirtæki sem áður störfuðu sem viðskiptabankar eða sparisjóðir en sæta slitameðferð samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki eða hafa lokið henni vegna þess að héraðsdómur hefur úrskurðað að þau skuli tekin til gjaldþrotaskipta. Í þessu felst að hafi þessi fyrirtæki ekki lokið nauðasamningum fyrir næstu áramót mun verða lagður á þau stöðugleikaskattur. Skatturinn verður einnig lagður á fyrirtæki sem áður störfuðu sem viðskiptabankar eða sparisjóðir og  lokið hafa slitameðferð en hafa ekki getað efnt skuldbindingar sínar vegna takmarkana á gjaldeyrisviðskiptum og fjármagnshreyfingum milli landa. Skattstofn er heildareignir fyrirtækjanna eins og þær standa 31. desember 2015. Frá reiknuðum skatti er heimilt að draga fyrir fram skilgreindar fjárfestingar skattskyldra aðila í erlendri mynt.

Skatturinn verður einskiptisskattur sem lagður verður á þann 15. apríl 2016 og verða gjalddagar fjórir á árinu: 1. maí, 1. júní, 1. júlí og 1. ágúst 2016. 

Frumvarp um stöðugleikaskatt var lagt fram á Alþingi 8. júní sl, eftir að forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra kynntu heildstæða aðgerðaáætlun til losunar fjármagnshafta.  Frumvarpið var samið í fjármála- og efnahagsráðuneyti, í samvinnu við forsætisráðuneyti, Seðlabanka Íslands og ríkisskattstjóra.  

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum