Hoppa yfir valmynd
9. júlí 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Tollar af 1609 tollskrárnúmerum afnumdir

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagaráðherra, hefur boðað afnám allra tolla, að tollum á matvöru undanskildum, í tveimur skrefum. Stefnt er að afnámi tolla á fatnað og skó 1. janúar 2016 og afnám annarra tolla komi til framkvæmda 1. janúar 2017. Almenn vörugjöld höfðu áður verið afnumin um síðustu áramót.

Tollar hafa hamlandi áhrif á viðskipti og draga úr alþjóðaviðskiptum í heild sinni. Þegar tollur er lagður á innflutta vöru hækkar verðið sem innlendir neytendur þurfa að greiða fyrir vöruna sem aftur dregur úr eftirspurn eftir henni. Afnám tolla lækkar vöruverð til neytenda, bætir samkeppnishæfni seljanda og eykur skilvirkni á innlendum markaði.

Hinn 17. mars 2015 skipaði fjármála- og efnahagsráðherra þriggja manna starfshóp um endurskoðun tollskrár. Starfshópurinn skilaði til ráðherra skilgrein þann 15. maí sl. Í skilagreininni kemur fram að gjaldfærðar tekjur ríkissjóðs af tollum námu á árinu 2014 um 5,7 milljörðum króna. Hlutfall matvöru var 34,2%, hlutfall fatnaðar 31,5% og hlutfall annarra vara var 34,3%.

Boðað afnám tolla tekur til vara sem falla undir 25.-97. kafla tollskrár. Er gert ráð fyrir að 324 tollskránúmer, sem falla undir fatnað og skó, lækka í 0% á árinu 2016 og 1285 tollskrárnúmer, sem eru aðrar vörur, lækki í 0% árið 2017.

Skilagrein starfshópsins í heild sinni má nálgast hér.

* Í upphaflegri tilkynningu um afnám tolla kom fram að alls verði tollar af 1933 tollskrárnúmerum afnumdir. Þar voru tollskrárnúmer fyrir föt og skó tvítalin en þetta hefur verið leiðrétt og eru tollskrárnúmerin alls 1609.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira