Aldrei mælst meira af makríl innan íslenskrar efnahagslögsögu
Í gær lauk rúmlega fimm vikna löngum aleiðangri hafrannsóknaskipsins Árna Friðrikssonar, sem hafði það megin markmið að meta magn og útbreiðslu makríls umhverfis Ísland og við Grænland. Samkvæmt fyrstu niðurstöðum er ljóst að heildarmagn makríls á Íslandsmiðum er meira en nokkru sinni frá því að athuganir hófust árið 2009.
Mun meira var af makríl sunnan við Ísland en undanfarin ár og er útbreiðslan suðlægari en áður. Svipað magn makríls fannst fyrir Vesturlandi og Austurlandi og þar hafði mælst undanfarin ár en hins vegar var lítið af makríl norður af landinu.
Framundan er frekari úrvinnsla á gögnum frá leiðangrinum og munu niðurstöður verða kynntar í sameiginlegri skýrslu þeirra aðila sem að leiðangrinum komu en verkefnið er hluti af sameiginlegum rannsóknum Íslendinga, Norðmanna, Færeyinga og Grænlendinga á dreifingu og magni helstu uppsjávartegunda í Norðaustur-Atlantshafi ásamt athugunum á magni átu og umhverfisþáttum á svæðinu.