Hoppa yfir valmynd
18. ágúst 2015 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Vegna ummæla formanns borgarráðs í Fréttablaðinu 18. ágúst 2015 um málefni tónlistarskóla í Reykjavík

Framlag ríkisins til tónlistarskóla nægir fyrir um 65% af kostnaði við kennslu nemenda og sá vandi sem nú blasir við í málefnum fjögurra tónlistarskóla í Reykjavík stafar af því að Reykjavíkurborg, eitt sveitarfélaga, hefur ekki viljað greiða skólunum það sem upp á vantar.

Ríkið og Samband íslenskra sveitarfélaga gerðu samkomulag um eflingu tónlistarnáms og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms 13. maí 2011*. Með samkomulaginu var stefnt að því að auka aðgengi nemenda að tónlistarnámi óháð lögheimilissveitarfélagi en ýmis sveitarfélög höfðu tekið upp þá reglu að nemendum, sem ættu lögheimili í öðru sveitarfélagi, skyldi fylgja greiðsla kennslukostnaðar frá lögheimilisveitarfélagi. Samkomulaginu var einnig ætlað að styðja við tónlistarnám á framhaldsstigi.

Samkomulagið breytir ekki ábyrgð sveitarfélaga á rekstri tónlistarskóla sem kveðið er á um í lögum nr. 75/1985 og leysir þau t.d. ekki undan þeirri skyldu að veita sjálfstæðum skólum, sem hlotið hafa samþykki þeirra, fjárhagslegan stuðning. Svo virðist sem Reykjavíkurborg, eitt sveitarfélaga í landinu, hafi annan skilningi á ákvæðum laganna en ríkið, þ.e.  að fyrrgreint samkomulag leysi hana undan skyldum gagnvart nemendum í framhaldsnámi í tónlist. Það gengur þvert á skilning þáverandi og núverandi mennta- og menningarmálaráðherra, og annarra sveitarfélaga, á eðli samkomulagsins.

Framlag til tónlistarskólanna, samkvæmt framangreindu samkomulagi, nægir fyrir um 65% af kostnaði við kennslu nemenda og sá vandi sem nú blasir við í málefnum fjögurra tónlistarskóla í Reykjavík stafar af því að Reykjavíkurborg, eitt sveitarfélaga, hefur ekki viljað greiða skólunum það sem upp á vantar.

Í stað þess að koma að rekstri tónlistarskólanna á sama hátt og önnur sveitarfélög, gerir Reykjavíkurborg kröfu um að ríkið brúi bilið og greiði kostnað við kennslu nemenda á framhaldsstigi að fullu. Reykjavíkurborg lagði fram samkomulagsdrög í þá veru fyrr á þessu ári, m.a. til að afstýra málsókn skólanna hendur henni og forða framangreindum fjórum skólum frá gjaldþroti. Ekki hefur verið gengið að því samkomulagi og því rangt að halda því fram að ríkið hafi ekki virt það.

Mennta- og menningarmálaráðherra skorar á borgaryfirvöld að endurskoða afstöðu sína í þessu efni og sinna skyldum sínum gagnvart tónlistarskólum borgarinnar á sama hátt og önnur sveitarfélög.

---------

*Á gildistíma samkomulagsins frá 13. maí 2011 veitti ríkissjóður framlag að fjárhæð 480 millj. kr. á ársgrunni vegna kennslukostnaðar í tónlistarskólum. Í júní 2012 var ákveðið að hækka framlag ríkisins, í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, um 40 millj.kr. enda höfðu ýmsar forsendur breyst og samkomulaginu hefur verið breytt til að koma til móts við þær. Á móti skuldbundu sveitarfélög sig til að taka tímabundið yfir ný verkefni frá ríki sem námu 230 millj. kr. á ársgrundvelli samkvæmt samkomulagi frá 5. október 2011. Verkefni þessi voru fjármögnuð á þann hátt að framlög sveitarfélaga voru innheimt af úthlutun framlaga Jöfnunarsjóðs til sveitarfélaga í hlutfalli við íbúafjölda í samræmi við ákvæði laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með áorðnum breytingum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum