Hoppa yfir valmynd
26. ágúst 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 8/2015

Á fundi úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála þann 26. ágúst 2015 var tekið fyrir mál nr. 8/2015:

 

Kæra A

á ákvörðun

Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

A hefur með kæru, dags. 26. maí 2015, skotið til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir Fæðingarorlofssjóður), dags. 21. apríl 2015, að synja honum um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

 

I. Málsatvik og málsmeðferð

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að kærandi sótti um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í sex mánuði með umsókn, dags. 22. nóvember 2012, vegna barns hans sem fæddist þann Y. janúar 2013. Með umsókn kæranda barst tilkynning um tilhögun fæðingarorlofs þar sem fram kemur að kærandi hyggist taka fæðingarorlof í nóvember 2013 en tímasetning vegna þeirra fimm mánaða sem eftir væru yrði ákveðin síðar. Þann 16. júní 2014 barst tilkynning frá kæranda þar sem fram kemur að kærandi óski eftir að taka fæðingarorlof frá 1. september til 31. október 2014 en tímasetning vegna þeirra þriggja mánaða sem eftir væru yrði ákveðin síðar. Þann 18. apríl 2015 barst á ný tilkynning frá kæranda þar sem fram kemur að kærandi óski eftir að taka fæðingarorlof frá 1. september 2015 til 30. nóvember 2015. Kæranda var þá með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 21. apríl 2015, synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á þeirri forsendu að réttur hans til töku fæðingarorlofs hefði fallið sjálfkrafa niður við 24 mánaða aldur barns hans þann Y. janúar 2015.         

 

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála 26. maí 2015. Með bréfi, dags. 27. maí 2015, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð Fæðingarorlofssjóðs barst með bréfi, dags. 11. júní 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 16. júní 2015, var greinargerð Fæðingarorlofssjóðs send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 29. júní 2015.

 

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar, sem er á ensku, greinir kærandi frá því að hann hafi notast við eyðublað á heimasíðu Fæðingarorlofssjóðs en þar komi fram að hann geti tekið fæðingarorlof þar til barn hans nái 36 mánaða aldri. Hann hafi notað enska útgáfu af eyðublöðum síðan árið 2013 en alltaf sótt nýja útgáfu til að athuga hvort eitthvað hafi breyst. Ekki sé enn búið að uppfæra eyðublöðin á ensku en þar komi fram að hægt sé að taka fæðingarorlof þar til barn nái 36 mánaða aldri. Kærandi telur að Fæðingarorlofssjóður beri ábyrgð á því að uppfæra eyðublöðin á ensku eftir að lögum er breytt.

Kærandi bendir á að ef tilgangur Fæðingarorlofssjóðs sé að hvetja foreldra til að verja tíma með börnum sínum ætti honum að vera heimilt að taka þá þrjá mánuði sem eftir væru af fæðingarorlofinu. Kærandi telur að Fæðingarorflossjóður ætti að upplýsa foreldra sem ekki hafi tekið fæðingarorlof sitt sex mánuðum áður en rétturinn falli niður. Þá tekur kærandi fram að ef hann hefði vitað að hann þyrfti að taka fæðingarorlof áður en dóttir hans næði 24 mánaða aldri hefði hann sannarlega gert það til að verja tíma með barni sínu.  

 

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að á þeim eyðublöðum sem kærandi hafi notast við komi fram í stöðluðum texta að réttur til fæðingarorlofs falli niður þegar barn nái 36 mánaða aldri og eigi bara við um börn sem fædd séu eftir 1. júlí 2009, annars séu það 18 mánuðir. Þann 1. janúar 2013 hafi gengið í gildi lög nr. 143/2012, um breytingu á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), þar sem gerð hafi verið breyting á 2. mgr. 8. gr. ffl. þannig að réttur til fæðingarorlofs vegna barna sem fædd væru 1. janúar 2013 og síðar félli niður þegar barn næði 24 mánaða aldri. Ljóst sé að láðst hafi að breyta staðlaða textanum á eyðublaðinu í kjölfar lagabreytingarinnar.

Fæðingarorlofssjóður vísar til þess að í 2. mgr. 8. gr. ffl., sbr. b-lið 1. gr. laga nr. 143/2012 sem hafi verið í gildi við fæðingu barns kæranda, sé kveðið á um að réttur til fæðingarorlofs vegna fæðingar falli niður er barn nái 24 mánaða aldri. Barn kæranda hafi fæðst Y. janúar 2013 og því hafi réttur kæranda til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði fallið sjálfkrafa niður við 24 mánaða aldur barns hans eða þann Y. janúar 2015. Í ffl. sé ekki að finna neina undanþágu frá ákvæði 2. mgr. 8. gr. um að heimilt sé að greiða fæðingarorlof vegna fæðingar barns eftir að barn nái 24 mánaða aldri nema í þeim tilvikum þegar barn hafi verið ættleitt eða tekið í varanlegt fóstur, sbr. 4. mgr. 8. gr. ffl. Ekki verði séð að sú undanþága eigi við í tilviki kæranda.

Þann 3. janúar 2013 hafi verið birt fréttatilkynning á heimasíðu Fæðingarorlofssjóðs um helstu lagabreytingar samkvæmt lögum nr. 143/2012, þar með talið um breytinguna úr 36 mánuðum í 24 mánuði. Jafnframt hafi leiðbeiningar þess efnis á öðrum stöðum á heimasíðunni verið uppfærðar. Það sama eigi við um íslensku og ensku útgáfu af lögunum um fæðingar- og foreldraorlof sem birt séu á heimasíðunni og loks hafi íslenska útgáfa eyðublaðsins „tilkynning um fæðingarorlof“ verið uppfærð. Óumdeilt sé hins vegar að láðst hafi að breyta þessum staðlaða texta í ensku útgáfu eyðublaðsins „tilkynning um fæðingarorlof“. Enska eyðublaðinu hafi hins vegar verið breytt nú.

Þrátt fyrir framangreindan annmarka verði ekki séð að röng eða ófullnægjandi upplýsingagjöf heimili greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði til kæranda, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála í máli nr. 22/2010. Ágreiningur um hugsanlegan rétt foreldris sem telur sig hafa orðið fyrir tjóni vegna rangrar upplýsingagjafar ráðist af almennum reglum skaðabótaréttarins og falli því ekki undir valdsvið nefndarinnar að úrskurða um slíkan ágreining.

 

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi, dags. 21. apríl 2015, að synja umsókn kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði fyrir tímabilið 1. september 2015 til 30. nóvember 2015 með vísan til þess að réttur hans til töku fæðingarorlofs hefði fallið sjálfkrafa niður við 24 mánaða aldur barns hans þann Y. janúar 2015.

Í 2. mgr. 8. gr. ffl. kemur fram að réttur til fæðingarorlofs stofnist við fæðingu barns og falli niður er barn nái 24 mánaða aldri. Ákvæði þessu var breytt með lögum nr. 143/2012, um breytingu á lögum nr. 95/2000, sem tóku gildi 1. janúar 2013 en fyrir breytinguna féll réttur til fæðingarorlofs niður við 36 mánaða aldur barns. Óumdeilt er að í tilkynningum kæranda um fæðingarorlof kemur fram í stöðluðum texta að réttur til fæðingarorlofs falli niður þegar barn nái 36 mánaða aldri. Ljóst er að um mistök er að ræða en láðst hafði að breyta staðlaða textanum í eyðublaðinu í kjölfar lagabreytingarinnar.

Barn kæranda náði 24 mánaða aldri þann Y. janúar 2015 og féll réttur kæranda því niður þann dag en ekki er að finna undanþágu frá ákvæði 2. mgr. 8. gr. nema þegar um er að ræða barn sem hefur verið ættleitt eða tekið í varanlegt fóstur, sbr. 5. mgr. 8. gr. ffl.

Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. ffl. er hlutverk úrskurðarnefndarinnar að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna. Foreldri getur ekki öðlast rétt til greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði á grundvelli ffl. vegna rangrar eða ófullnægjandi upplýsingagjafar þótt sönnuð væri. Ágreiningur um hugsanlegan rétt foreldris sem telur sig hafa orðið fyrir tjóni vegna rangrar upplýsingagjafar ræðst af almennum reglum skaðabótaréttarins og fellur því ekki undir valdsvið nefndarinnar að úrskurða um slíkan ágreining.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður ekki hjá því komist að staðfesta hina kærðu ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 21. apríl 2015, að synja A um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

Gunnlaugur Sigurjónsson varaformaður

Heiða Gestsdóttir

Ragnhildur Benediktsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum