Hoppa yfir valmynd
28. ágúst 2015 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Ábyrgð, réttindi og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum

Eftirfylgni með könnun á innleiðingu reglugerðar nr. 1040/2011 um ábyrgð, réttindi og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum er lokið

Mennta- og menningarmálaráðuneytið fékk í október 2013 Capacent ehf. til að kanna stöðu innleiðingar reglugerðar nr. 1040/2011 um ábyrgð, réttindi og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum. Áður hefur verið gerð grein fyrir meginniðurstöðum könnunarinnar.

Í könnuninni voru 49 spurningar sem beint var til skólastjóra. Spurt var um atriði í tengslum við skólabrag, einelti og fagráð gegn einelti, skólareglur, brottrekstur úr kennslu/skóla og hvort skólar hafi þurft að nota líkamlegt inngrip og verklagsreglur þar að lútandi. Í lokin voru skólastjórar spurðir almennra spurninga eins og hvort þeir teldu mikla eða litla þörf á að ráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga létu útbúi almenn viðmið um skólareglur, sbr. 9. gr. reglugerðarinnar, hvernig skólum hafi almennt tekist að innleiða meginákvæði reglugerðarinnar og hvort skólastjórar teldu þörf á endurskoðum á einhverjum ákvæðum hennar.

Ráðuneytið hefur undanfarna mánuði verið að fylgja niðurstöðum könnunarinnar eftir og óskað eftir skýringum frá viðkomandi skólum. Ráðuneytið hefur fallist á skýringar skólanna og brugðist við eftir því sem við á. 

Ráðuneytið hefur nú lokið formlega eftirfylgni með könnuninni en vill af gefnu tilefni árétta ýmis almenn atriði og að samkvæmt reglugerðinni:

  • 1. Eiga skólar að skilgreina í hverju jákvæður skólabragur felst og móta leiðir til að viðhalda honum.

  • 2. Ber skólum reglulega að kanna eðli og umfang eineltis í skólum, kynna niðurstöður og nýta þær til úrbóta.

  • 3. Eiga allir skólar að setja skólareglur sem kynntar eru nemendum og foreldrum þeirra og birtar í starfsáætlun. Skólareglurnar á að endurskoða reglulega. Í samræmi við niðurstöðu könnunarinnar sem snýr að skólareglum hefur ráðuneytið í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga útbúið almenn viðmið um skólareglur.

  • 4. Ber öllum skólum að setja sér verklagsreglur um hvað gera skal þegar skóli þarf að grípa til líkamlegs inngrips.

  • 5. Geta foreldrar eða skólar óskað eftir aðstoð sérstaks fagráðs um einelti í grunnskólum ef ekki tekst að finna viðunandi lausn innan skóla eða sveitarfélags, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og aðkomu sérfræðiþjónustu. Vakin er athygli á að fagráð um einelti í grunnskólum hefur starfsaðstöðu í Menntamálastofnun, Víkurhvarfi 3, 203 Kópavogi, netfang: [email protected] og ber að beina erindum til fagráðsins þangað.

Ráðuneytið væntir þess að allir grunnskólar kynni sér vel ákvæði í lögum, reglugerðum og aðalnámskrá um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum og sjái til þess að ávallt sé unnið samkvæmt þeim. Þá vill ráðuneytið ennfremur árétta að sveitarfélög fara með eftirlit með því að skólar vinni samkvæmt þeim lögum og reglugerðum sem um skólastarf í grunnskólum gilda og ber að veita ráðuneytinu upplýsingar um framkvæmd skólastarfs í sveitarfélögum þegar eftir þeim er leitað.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum