Hoppa yfir valmynd
23. september 2015 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Aukið umhverfisstarf hjá ríkisstofnunum

VINN-konnun

Stofnanir ríkisins hafa í auknum mæli unnið að umhverfisvænni rekstri og vistvænum innkaupum frá árinu 2013. Þetta eru niðurstöður könnunar sem gerð var meðal forstöðumanna ríkisstofnana og ráðuneyta. Þá sýnir könnunin að umhverfisstarf hefur ýmis jákvæð áhrif, s.s. að starfsánægja starfsfólks eykst, fjármunir sparast og ímynd stofnunar batnar. 

Könnunin var gerð í mars og apríl s.l. og var send til 185 stofnana en svör komu frá 101 stofnun. Helstu niðurstöður könnunarinnar eru að almennt hefur hvers konar umhverfisstarf aukist. Stofnanir hafi sett sér umhverfisstefnu og -markmið og flokka sorp í meira mæli en áður. Mikil aukning hefur orðið í gerð samgöngusamninga en í ár bjóða 42% stofnana starfsmönnum sínum upp á slíka samninga samanborið við 15% árið 2013.

Minni breytingar voru milli ára á vistvænum innkaupum stofnana en þó hafa fleiri stofnanir gert innkaupagreiningu, sett sér innkaupastefnu, upplýst birgja um aukin kaup á vistvænni vörum og fleiri þekkja til umhverfisskilyrða í dag en árið 2013. Færri stofnanir hafa þó sett saman teymi um vistvæn innkaup og þekkja til gátlista vistvænna innkaupa í ár heldur en árið 2013.

Þetta er í annað sinn sem hugur forstöðumanna til vistvænni innkaupa og græns ríkisreksturs er kannaður. Ein helsta niðurstaða í könnuninni árið 2013 var að forstöðumenn kölluðu eftir fræðslu og einföldum verkfærum til að geta unnið betur að vistvænni rekstri. Til að bregðast við því var verkefnið Græn skref í ríkisrekstri sett á fót og hafa nú 23 stofnanir skráð sig í verkefnið, sjá www.graenskref.is. Þá er ánægjulegt að sjá að 78% stofnana þekkja nú þegar til verkefnisins og 56% þeirra segjast ætla að taka þátt í Grænum skrefum í ríkisrekstri.

Þá sögðu forstöðumenn jákvæð áhrif umhverfisstarfs vera mörg, s.s. að starfsánægja starfsfólks hafi aukist, fjármunir hafi sparast, samgöngusamningar hafi hvatt til vistvænni ferðamáta og aukinnar hreyfingar og að ímynd stofnunarinnar hafi batnað. 

Könnunin var gerð á vegum stýrihóps um vistvæn innkaup og grænan ríkisrekstur sem skipaður er af umhverfis- og auðlindaráðherra.

Könnunin í heild sinni 
Æ fleiri ríkisstofnanir stíga græn skref í rekstri.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum