Hoppa yfir valmynd
25. september 2015 Utanríkisráðuneytið

Ný Heimsmarkmið um sjálfbæra þróun

Heimsmarkmidin

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra tekur næstu þrjá dagana þátt í leiðtogafundi í höfuðstöðum Sameinuðu þjóðanna þar sem samþykkt verða ný markmið um sjálfbæra þróun. Heimsmarkmiðin, eins og þau eru einnig nefnd, gilda fyrir öll 193 aðildarríki SÞ og marka mikil tímamót þar sem ríki heims hafa ekki fyrr sett sér svo víðtæk, sameiginleg markmið. 

Heimsmarkmiðin eru sautján, með 169 undirmarkmiðum. Þau taka gildi á næsta ári og gilda til ársins 2030. Markmiðin, ásamt pólitískri yfirlýsingu, áætlun um framkvæmd og eftirfylgni ná yfir mjög vítt svið og kveða sterkar að orði en áður hefur náðst samstaða um á vettvangi SÞ. 

Með Heimsmarkmiðunum er stefnt að því að eyða fátækt, tryggja velmegun, mannréttindi og jafnrétti um allan heim með hliðsjón af umhverfi okkar, bæði á landi og sjó. Sérstakt þema samþykktarinnar er að enginn verði skilinn eftir, að markmið hennar nái til allra jarðarbúa og að sérstök áhersla verði lögð á þá allra fátækustu. 

Íslensk stjórnvöld lögðu áherslu á fimm atriði í vinnu að nýju markmiðunum, þ.e. endurnýjanlega orku, stöðvun landeyðingar, sjálfbæra nýtingu og verndun hafsins, jafnrétti kynjanna og framfarir í lækningu sjúkdóma og skaða á taugakerfinu. Náðist góður árangur í að tryggja þessum málum framgang en sérstök markmið um orku, nýtingu lands, hafið og jafnrétti kynjanna falla vel að áherslum Íslands, auk þess sem áhersla er á þessi mál í pólitískri yfirlýsingu markmiðanna. 

Mikil andstaða var meðal þróunarríkja við að bæta við fleiri markmiðum eða undirmarkmiðum og tókst því ekki að bæta við nýju þróunarmarkmiði eða undirmarkmiði um lækningu sjúkdóma og skaða á taugakerfinu. Vegna þessarar andstöðu var lögð áhersla á að koma inn tilvísun um málefnið í pólitísku yfirlýsingunni sem hægt væri að tengja markmiðunum. Það tókst og í yfirlýsingunni er sérstaklega tiltekið að koma eigi í veg fyrir og meðhöndla taugasjúkdóma og skaða á taugakerfinu. Standa vonir til að það geti veitt sóknarfæri fyrir baráttuna gegn taugasjúkdómum undir markmiðinu um heilsu og velferð handa öllum. 

Að baki liggur rúmlega tveggja ára víðtækt samráðsferli með þátttöku sérfræðinga, frjálsra félagasamtaka, atvinnulífs, fræðasamfélags og annarra. Nýju markmiðin, niðurstöður Addis Ababa ráðstefnunnar um fjármögnun þróunar sem samþykktar voru í júlí sl., sem og nýr samningur um loftslagsmál, sem stefnt er að því að verði samþykktur í París í desember nk., mynda heildstæða stefnumótun sem Sameinuðu þjóðirnar og ríki heims munu vinna eftir næstu 15 árin. 

Heimsmarkmiðin 17 ásamt undirmarkmiðum

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum