Hoppa yfir valmynd
16. október 2015 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 5/2015

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála


A

gegn

Seðlabanka Íslands

 

Kærandi, sem er kona, taldi að brotið hefði verið gegn jafnréttislögum með því að byrjunarlaun kæranda voru ákvörðuð lægri en karls sem ráðinn var á sama tíma til að gegna jafnverðmætu starfi. Í ljósi þess að fyrir lá að störf þeirra væru sambærileg og hlutlægum rökum ekki til að dreifa sem réttlætt gæti launamun þeirra á milli var það niðurstaða kærunefndar að kærða hefði ekki tekist að sýna fram á að launamunurinn væri byggður á öðru en kynferði.

 

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála 16. október 2015 er tekið fyrir mál nr. 5/2015 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:

  2. Með kæru, dagsettri 21. apríl 2015, kærði B hrl., f.h. A, ætlaðan mismunun á launakjörum milli hennar og annars sérfræðings hjá Seðlabanka Íslands. Kærandi telur að Seðlabanki Íslands hafi brotið gegn lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, við ákvörðun launa kæranda frá og með 1. maí 2014. Kærandi krefst þess að kærunefnd jafnréttismála staðfesti brot Seðlabanka Íslands og gerir einnig kröfu um málskostnað með vísan til 5. mgr. 5. gr. laga nr. 10/2008.

  3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dagsettu 6. maí 2015. Greinargerð kærða barst með bréfi 19. júní 2015, og var hún kynnt kæranda með bréfi kærunefndar 22. júní 2015. Kærunefndinni barst bréf kæranda, dagsett 3. júlí 2015, með athugasemdum við greinargerð kærða og sem kynnt var kærða með bréfi kærunefndar 6. júlí 2015.

  4. Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

    MÁLAVEXTIR

  5. Kærandi var ráðin í stöðu sérfræðings í undanþágudeild gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands 1. maí 2014. Kærandi telur að hún hafi notið lægri launakjara fyrir sambærileg  störf og karl sem ráðinn var í stöðu sérfræðings í rannsóknardeild gjaldeyriseftirlitsins á sama tíma. Karlmaðurinn fékk launahækkun við fastráðninguna 1. nóvember 2014 en kærandi 1. febrúar 2015.

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA

  6. Kærandi greinir frá menntun sinni og starfsreynslu og tekur fram að sömu menntunar- og hæfniskröfur hafi verið gerðar í auglýsingu um störfin. Kærandi telur að laun hennar og karlmannsins hefðu átt að vera jöfn þegar þau hófu störf hjá kærða. Að mati kæranda séu störfin algerlega sambærileg og jafnverðmæt en um sé að ræða tvær deildir innan sama sviðs bankans sem vinni náið saman að framkvæmd laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál. Kærandi rekur nánar starfsemi undanþágudeildarinnar og bendir á að mikið álag sé á starfsmenn á dagvinnutíma auk þess sem starfsmenn þurfi oft að vinna mikla yfirvinnu til að anna innsendum erindum. Að því leyti telur kærandi að starf innan undanþágudeildar sé meira krefjandi en starf innan rannsóknardeildar.

  7. Kærandi tekur fram að kærði hafi vísað til þess að karlmaðurinn hafi komið betur út í starfsviðtali og að ekki væri um sama starf að ræða. Þá hafi kærði vísað til þess að starfsmönnum undanþágudeildar stæði til boða yfirvinnukaup. Kærandi bendir á að hún hafi verið valin úr um það bil eitt hundrað umsækjenda hópi og fái því ekki séð hvernig frammistaða hennar geti hafa verið lakari en karlmannsins. Þá sé það mjög ómálefnalegt að halda því fram að frammistaða í starfsviðtali geti haft slík áhrif á fjárhæð launa.

  8. Kærandi greinir frá því að launamunur hennar og karlmannsins skýrist af því að hún hafi fengið 17% álag á laun sín en karlmaðurinn 32,4%. Kærði hafi greint frá því að ákvörðun um álag á laun þeirra hafi verið byggð á hlutlægum viðmiðum á grundvelli upplýsinga úr umsókn og starfsviðtali. Þar hafi komið fram að karlmaðurinn hafi haft haldbæra þekkingu og reynslu af lögum um gjaldeyrismál vegna fyrri starfa ásamt reynslu og þekkingu á greiningu flókinna viðskiptalegra samninga og reynslu af ýmis konar fjármálagerningum sem hafi fallið vel að starfi rannsóknardeildarinnar. Kærandi bendir á að í auglýsingu um starfið hafi ekki verið gerð krafa um framangreind hæfisskilyrði. Því telur kærandi ótækt af kærða að byggja á umræddri reynslu og þekkingu karlmannsins við ákvörðun launa vegna starfsins. Þá telur kærandi að eigi framangreindir verðleikar karlmannsins að telja til hækkunar launa hans við ráðningu hjá kærða hafi með sama hætti átt að meta aðra verðleika kæranda en þá sem beinlínis hafi verið gerðir að hæfisskilyrði í auglýsingu um starf hennar.

  9. Kærandi tekur fram að kærði hafi vísað til þess að karlmaðurinn hafi við upphaf starfs getað án sérstakrar aðlögunar hafið rannsókn á flóknum málum sem þörfnuðust mikillar greiningarhæfni og því hafi álag á laun hans verið ákveðið 32,4%. Kærandi telur það tilbúnað hjá kærða að byrjendalaun karlmannsins hafi verið ákvörðuð á grundvelli frammistöðumats á fyrstu stigum starfa hans við bankann. Það standist auk þess ekki heilbrigða skynsemi. Ákvörðun um álag á byrjendalaun kæranda og karlmannsins hafi verið tekin áður en þau hafi hafið störf hjá kærða en ekki á einhverjum síðari tímapunkti líkt og ráðningarsamningur kæranda sé til vitnis um. Umfjöllun um aðlögun í starfi sé því algjörlega tilefnislaus. Þá mótmælir kærandi þeirri fullyrðingu kærða að við lok sex mánaða reynslutíma kæranda hafi mat á frammistöðu ekki gefið tilefni til fastráðningar. Kærandi kveðst ekki sjá hver tilgangur kærða sé með slíkri fullyrðingu annar en sá að valda kæranda álitshnekki og vega að æru hennar og starfsheiðri. Málatilbúnaður kærða sé í andstöðu við gögn málsins sem gefi sterklega til kynna rökþrot hans vegna brots á jafnréttislögum.

  10. Kærandi telur að kærði hafi ekki fært fram haldbær rök fyrir launamismun á milli kæranda og karlmannsins. Að mati kæranda hafi kærði ekki getað verðmetið karlmanninn sem verðmætari starfskraft vegna sérstakra hæfileika hans þegar þau hafi verið ráðin til starfa. Sömu kröfur hafi verið gerðar til starfanna og kærandi og karlmaðurinn hafi algerlega sambærilega stöðu með tilliti til menntunar og reynslu. Þá telur kærandi að hún og karlmaðurinn hafi borið sömu ábyrgð í störfum sínum fyrir kærða. Hvorugt þeirra hafi mannaforráð og þau sinni sambærilegum og jafnverðmætum störfum innan bankans. Þó að einstakir þættir starfa í undanþágudeild og rannsóknardeild í gjaldeyriseftirliti bankans kunni að vera ólíkir þá séu störfin sambærileg að ábyrgð, inntaki og ytri búnaði.

  11. Kærandi tekur fram að hún standi að minnsta kosti jafnfætis karlmanninum að því er menntun og starfsreynslu varðar. Það hvað komi fram í ráðningarviðtali geti að mati kæranda ekki ráðið úrslitum um launakjör. Fullyrðingar kærða viðvíkjandi því að störfin séu ólík, að bankinn hafi gert mismunandi hæfniskröfur eða mismunandi kröfur um þekkingu og reynslu til þeirra sem hafi verið ráðnir í störfin, séu í algeru ósamræmi við þær kröfur sem settar hafi verið fram í auglýsingu starfanna tveggja. Kærandi telur að um eftiráskýringu sé að ræða þar sem reynt hafi verið að setja fram ástæður til stuðnings ákvörðun kærða um launamun í tilviki kæranda.

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA

  12. Kærði hafnar því að brotið hafi verið gegn ákvæðum jafnréttislaga við ákvörðun launa kæranda. Kærði rekur inntak starfa lögfræðinga, annars vegar í rannsóknardeild og hins vegar í undanþágudeild gjaldeyriseftirlits bankans. Af þeim samanburði megi sjá að verkefni rannsóknardeildar séu að ýmsu leyti ólík verkefnum undanþágudeildar. Þau snúi einkum að rannsóknum á ætluðum brotum á lögum um gjaldeyrismál og reglum settum á grundvelli þeirra. Flokkun verkefna sé ekki jafn auðveld og flokkun verkefna í undanþágudeild, en þó sé gerður ákveðinn greinarmunur á milli rannsóknarverkefna eftir umfangi þeirra og eðli. Ólíkt undanþágubeiðnum sé oft erfitt að greina í upphafi hversu umfangsmikið meint brot reynist og geti því komið til endurúthlutunar reynist verkefni of flókið fyrir viðkomandi starfsmann. Í framkvæmd hafi kærði alla jafna gert auknar hæfniskröfur og auknar kröfur um þekkingu og reynslu til þeirra sem ráðnir séu í rannsóknardeild gjaldeyriseftirlitsins. Auknar kröfur um reynslu og þekkingu og þar með hvaða verkefni starfsmanni séu falin, birtist í mismunandi álagsgreiðslum. Af hálfu kærða sé í þessu samhengi enginn greinarmunur gerður á konum og körlum og reyndar hafi konur að meðaltali fengið ívið hærri álagsgreiðslur við ráðningu hjá kærða.

  13. Kærði bendir á að kærandi hafi sótt um störf í bæði undanþágudeild og rannsóknardeild gjaldeyriseftirlitsins. Hún hafi ekki komist í hóp þeirra umsækjenda sem boðaðir hafi verið í viðtal vegna starfs í rannsóknardeild. Aftur á móti hafi karlmaðurinn komist í þann hóp sem boðaður hafi verið í viðtal vegna starfs í rannsóknardeild og fengið að lokum starf í þeirri deild. Þrátt fyrir þær auknu kröfur sem almennt séu gerðar til sérfræðinga í rannsóknardeild sé það mat kærða að þegar litið sé heildstætt til inntaks starfa sérfræðinga deildanna sé um að ræða að meginstefnu til jafnverðmæt störf í skilningi jafnréttislaga, þótt nokkur eðlismunur sé á þeim. Í því felist að kærði hafi ekki greitt sérfræðingum í rannsóknardeild hærri laun nema á grundvelli málefnalegra sjónarmiða, svo sem starfsreynslu, þekkingar, menntunar, hversu flókin og erfið verkefni starfsmaður muni fá og svo framvegis.

  14. Kærði tekur fram að laun starfsmanna gjaldeyriseftirlits bankans séu ávallt ákveðin með sama hætti hvort sem um konur eða karla sé að ræða. Öllum starfsmönnum með meistarapróf sé skipað í sama launaflokk og sama launaþrep samkvæmt kjarasamningi, óháð kynferði. Ofan á grunnlaunin sé öllum starfsmönnum greitt ferns konar álag: 17%, 24%, 32,4% og 39,4%. Við ákvörðun um hlutfall þessa álags hafi verið litið til málefnalegra sjónarmiða á borð við menntun, þekkingu og reynslu viðkomandi af þeim viðfangsefnum sem honum sé ætlað að sinna. Við þá ákvörðun fari fram mat sem byggist á hlutlægum viðmiðum sem grundvallast á upplýsingum úr umsókn, ferilskrá og starfsviðtali. Starfsviðtöl fari þannig fram að öllum umsækjendum um tiltekið starf sé gert að svara sömu spurningum sem séu fyrirfram samdar á hlutlægan hátt. Spurningum sé hagað í samræmi við þá sérfræðiþekkingu sem hvor deild krefjist hverju sinni og ekki sé því um að ræða sömu spurningar í viðtölum vegna annars vegar starfa í undanþágudeild og hins vegar vegna starfa í rannsóknardeild, enda sé um ólíka nálgun á viðfangsefni deilda að ræða.

  15. Kærði áréttar að upplýsingar úr umsóknum og svör umsækjenda við spurningum í starfsviðtali skipti eðli málsins samkvæmt miklu máli við mat á því hver sé talinn hæfastur til að gegna starfi sem auglýst sé til umsóknar. Þegar valið hafi farið fram og ákveðið hafi verið að ráða tiltekinn umsækjanda í viðkomandi starf séu þau gögn sem hafi legið þeirri ákvörðun til grundvallar notuð við ákvörðun um greiðslu álags. Hæfniskröfur sem komi fram í auglýsingunni sjálfri um hið opinbera starf séu aðeins lágmarkskröfur til þeirra sem hafa hug á að sækja um starfið. Kærði bendir á að frá árinu 2012 hafi 13 starfsmenn með meistarapróf í lögfræði verið ráðnir til starfa við gjaldeyriseftirlitið, ýmist í rannsóknardeild eða undanþágudeild, og körlum hafi að meðaltali verið ákvarðað 20,85% álag en konum 25,09%. Ákvörðun um hækkun á álagi eftir að viðkomandi hafi hafið störf sé reist á mati á bættri frammistöðu, aukinni ábyrgð og flækjustigi verkefna sem viðkomandi sinni. Endurskoðun launa fari fram tvisvar á ári, yfirleitt í febrúar og ágúst ár hvert.

  16. Kærði greinir frá því að álag á laun kæranda hafi verið ákvarðað 17% og við þá ákvörðun hafi verið tekið tillit til þess að kærandi hafði afar takmarkaða þekkingu eða reynslu af lögum um gjaldeyrismál þegar að hún hafi hafið störf hjá kærða. Til að byrja með hafi kæranda verið falin verkefni sem hafi falið í sér afgreiðslu einfaldra beiðna um undanþágu. Að loknum reynslutíma hafi mat á frammistöðu hennar ekki gefið tilefni til fastráðningar og því hafi reynslutími hennar verið framlengdur um þrjá mánuði. Kærandi hafi fengið fastráðningu þann 1. febrúar 2015 og þá hafi álag á laun hennar hækkað í 24%. Karlmaðurinn, sem kærandi beri sig saman við, hafi hins vegar haft þriggja ára starfsreynslu frá útskrift og haldbæra reynslu og þekkingu á lögum um gjaldeyrismál vegna fyrri starfa sinna. Hann hafi í fyrri störfum sínum öðlast reynslu og þekkingu á greiningu flókinna viðskiptalegra samninga, reynslu af ýmiss konar fjármálagerningum og fyrirtækjalögfræði sem hafi fallið vel að því starfi sem honum hafi verið ætlað að sinna hjá rannsóknardeildinni. Við upphaf starfa sinna hafi karlmaðurinn því getað án sérstakrar aðlögunar og tilsagnar hafið rannsókn á flóknum málum af vettvangi gjaldeyrislaga sem þörfnuðust mikillar greiningarhæfni. Með tilliti til framangreindra þátta hafi ákvörðun um álag á laun hans við upphaf starfs því verið ákveðið 32,4%. Af framangreindu sé ljóst að ákvarðanir um álag á laun kæranda og karlmannsins hafi verið byggt á hlutlægum viðmiðum sem hafi grundvallast á upplýsingum úr umsóknum, starfsviðtölum, starfsreynslu og sérfræðiþekkingu á þeim viðfangsefnum sem þeim hafi verið ætlað að sinna. Sérstaklega sé lögð áhersla á að kærandi hafi staðið karlmanninum að baki hvað viðeigandi starfsreynslu og sérfræðiþekkingu varðaði. Ákvörðun um greiðslu álags hafi því tekið mið af þessum upplýsingum og því ekkert haft með kynferði að gera.

  17. Kærði vísar til nokkurra úrskurða kærunefndar jafnréttismála og bendir á að kærunefndin hafi í úrskurðarframkvæmd margsinnis talið að atvinnurekanda sé heimilt að líta til sérstakrar þekkingar og reynslu við ráðningu í starf og ákvörðun launa. Þegar svo beri undir hafi mismunur í starfskjörum verið talinn réttlætanlegur með tilliti til málefnalegra ástæðna og því ekki um að ræða brot á lögum nr. 10/2008. Þá hafi kærunefndin í úrskurðarframkvæmd sérstaklega litið til þess hversu vel starfsreynsla falli að þeirri reynslu sem auglýst hafi verið eftir.

  18. Kærði gerir athugasemd við þá staðhæfingu kæranda um að starfsmenn undanþágudeildar hafi oft á tíðum þurft að vinna mikla yfirvinnu og að starf innan þeirrar deildar sé meira krefjandi en hjá rannsóknardeild. Kærði bendir á að alloft hafi þurft að vinna yfirvinnu í undanþágudeild en sú yfirvinna hafi frekar hvílt á þeim starfsmönnum sem séu reynslumeiri og hafa með höndum flóknari verkefni en þeir sem teljist „nýráðnir“. Sama sé að segja um rannsóknardeild og því sé ekki hægt að halda því fram að störf í undanþágudeild séu meira krefjandi. Þá bendir kærði á að kærandi hafi ekki unnið yfirvinnu að marki.

  19. Kærði telur ranghermt að starfsmannastjóri bankans hafi nefnt á fundi að téður launamunur réttlættist af því að karlmaðurinn hafi komið betur út í starfsviðtali. Á fundinum hafi verið rætt um þær upplýsingar sem komið hefðu fram í starfsviðtölum og lesin upp svör umsækjenda við spurningu um þekkingu á lögum um gjaldeyrismál. Ekki hafi verið rætt um frammistöðu í ráðningaviðtalinu. Kærði bendir á að það sé rétt að ekki hafi verið vikið að reynslu eða þekkingu af greiningu flókinna viðskiptalegra samninga í auglýsingu um störfin en það breyti því þó ekki að slík þekking og/eða reynsla geti verið til hækkunar á álagsgreiðslum og það sé fyllilega málefnalegt. Þá bendir kærði á að álag hafi verið ákveðið út frá ráðningarviðtali og upplýsingum í ferilskrá.

  20. Kærði mótmælir þeirri staðhæfingu kæranda að hún og karlmaðurinn hafi verið í algerlega sambærilegri stöðu með tilliti til menntunar og reynslu við ráðningu. Þetta sé rangt hvað reynslu varðar, eins og ítarlega hafi verið rökstutt. Þá bendir kærði á að það sem fram komi í ráðningarviðtali skipti vitaskuld miklu máli varðandi launakjör en einnig sé litið til fleiri atriða, svo sem ferilskrár. Um sé að ræða fullkomlega eðlilega og málefnalega nálgun.

  21. Kærði áréttar að laun starfsmanna gjaldeyriseftirlitsins séu ákveðin með sama hætti, óháð því hvort sem um sé að ræða konur eða karla. Þannig sé öllum starfsmönnum með meistaragráðu raðað í sama launaflokk og sama launaþrep óháð kynferði og öllum starfsmönnum sé greitt álag ofan á grunnlaunin. Varðandi ákvörðun um hlutfall álagsins sé litið til málefnalegra sjónarmiða eins og menntunar, þekkingar og reynslu viðkomandi á þeim viðfangsefnum sem hann sé að fara að takast á hendur hverju sinni. Við þá ákvörðun fari fram mat sem byggist á hlutlægum viðmiðum sem grundvallast á upplýsingum úr umsókn, ferilskrá og starfsviðtali. Í þessu tilfelli hafi karlmaðurinn verið talinn búa yfir víðtækari þekkingu og starfsreynslu á þeim sviðum sem skipta máli við störf í gjaldeyriseftirliti kærða og því hafi honum verið ákvarðað hærra álag í samræmi við það. Það sé því ljóst að þau viðmið sem hafi verið lögð til grundvallar ákvörðun um hlutfall álags á laun starfsmanna í gjaldeyriseftirliti kærða hafi ekki falið í sér kynjamismunun.

    ATHUGASEMDIR KÆRANDA

  22. Í athugasemdum kæranda er áréttað að í auglýsingu um umdeild störf hafi verið gerðar nákvæmlega sömu hæfniskröfur og það liggi fyrir að starfstími kæranda og karlmannsins, sem hún beri sig saman við, hafi verið áþekkur að loknu mastersnámi, meira að segja einu ári lengri hjá kæranda. Þau hafi bæði unnið við lögfræðistörf frá útskrift og aflað sér reynslu á þeim tíma. Kærandi bendir á að hún hafi mátt gera ráð fyrir því að við ákvörðun launa í upphafi starfstíma hjá kærða yrðu greidd sömu laun fyrir sambærileg störf. Í greinargerð kærða sé störfum í undanþágudeild og rannsóknardeild lýst í ítarlegu máli. Þar komi fram að deildirnar eigi það sammerkt að verkefnafjöldi sé mikill og að nýliðum séu fengin auðveldari mál til úrlausnar. Það liggi þannig fyrir að nýir starfsmenn taki við miklum fjölda verkefna en reyndari starfsmenn leysi úr að flóknustu verkefnunum. Þetta eigi jafnt við um báðar deildir og geti því ekki nýst til að útskýra kjaramun á milli starfa við deildirnar. Þá bendir kærandi á að í greinargerð kærða komi fram að það sé mat kærða að störfin séu jafnverðmæt í skilningi jafnréttislaga, þótt nokkur eðlismunur sé á þeim.

  23. Kærandi tekur fram að þau gögn sem hafi legið fyrir við ráðningu gefi ekki til kynna að meiri kröfur hafi verið gerðar til lögfræðings sem hafi sótt um starf í rannsóknardeild gjaldeyriseftirlitsins heldur en í undanþágudeild. Mismunandi starfslýsing í auglýsingum lýsi aðeins störfunum sem slíkum en ekki því hvort þeirra sé meira krefjandi. Fullyrðing kærða að alla jafna hafi verið gerðar auknar hæfniskröfur og auknar kröfur um þekkingu og reynslu til þeirra sem ráðnir væru í rannsóknardeild gjaldeyriseftirlits sé með öllu ósönnuð. Þau rök kærða beri þess merki að vera eftiráskýring sem kærði hafi sett fram eftir að kvörtun hafi komið fram af hálfu kæranda.

  24. Kærandi bendir á að það geti ekki talist hlutlæg sjónarmið að byggja niðurröðun launaflokks nýbyrjaðs starfsmanns á því hvernig viðkomandi svari spurningum í starfsviðtali. Það hljóti að teljast hlutlæg sjónarmið að byggt sé á skjalfærðum gögnum en ekki á tilviljanakenndum svörum umsækjanda í starfsviðtali. Kærandi og karlmaðurinn hafi ekki farið í viðtal vegna sama starfs - þótt störfin séu vissulega sviplík og jafnverðmæt - og ekki spurð sömu spurninga.

  25. Kærandi mótmælir því að það sé hluti af staðreyndum málsins og geti komið til álita og skoðunar við heildarmat á málinu að karlmanninum hafi verið boðin fastráðning að reynslutíma loknum en kæranda ekki fyrr en að lengdum reynslutíma. Ákvörðun álags hafi ekki farið fram að teknu tilliti til þess hvernig viðkomandi hefði gengið í starfi heldur hafi hún þvert á móti verið tekin áður en viðkomandi hafði hafið störf.

  26. Kærandi bendir á að í þeim úrskurði kærunefndar jafnréttismála sem kærði hafi vísað til hafi verið um að ræða aðstæður þar sem karlmaður hafi verið ráðinn í stöðu umfram konu. Kærandi telur það fordæmi ekki eiga við þar sem kærandi og karlmaðurinn sem hún beri sig saman við hafi ekki verið í samkeppni um sama starfið. Karlmanninum hafi verið veitt betri starfskjör á grundvelli atriða sem hvergi hafi verið tiltekin í auglýsingum um starfið að myndu hafa áhrif á kjör.

    NIÐURSTAÐA

  27. Í 1. mgr. 1. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna konum og körlum í launum og öðrum kjörum á grundvelli kyns. Ef leiddar eru líkur að því að kona og karl sem starfa hjá sama atvinnurekanda njóti mismunandi launakjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf skal atvinnurekandi sýna fram á, ef um launamun er að ræða, að munurinn skýrist af öðrum þáttum en kyni, sbr. 2. mgr. 25. gr. sömu laga.

  28. Með auglýsingu sem birtist 25. janúar 2014 auglýsti kærði störf laus til umsóknar við úrlausn tvenns konar verka, við rannsóknir gjaldeyriseftirlits og við úrlausnir undanþágubeiðna gjaldeyriseftirlits. Þar kom fram að helstu verkefni þeirra sem myndu starfa við rannsóknir væru í því fólgin að framfylgja lögum um gjaldeyrismál, meðal annars að annast eftirlit með framkvæmd nefndra laga, auk rannsókna á ætluðum brotum á þeim lögum og reglum settum á grundvelli laganna. Helstu verkefni þeirra sem myndu starfa við afgreiðslu undanþágubeiðna fólust einnig í að framfylgja lögum um gjaldeyrismál en í því starfi sem auglýsingin laut að í þessum efnum fólst starfið meðal annars í að afgreiða beiðnir um undanþágur frá lögunum og svara fyrirspurnum og erindum er lytu að túlkun laga um gjaldeyrismál. Í báðum störfunum var gert ráð fyrir samvinnu við önnur svið kærða ásamt öðrum tilfallandi verkefnum og báðum störfunum fylgdu einnig samskipti við innlenda og erlenda aðila og stofnanir. Hæfniskröfur til umsækjenda um báðar tegundir starfa voru þær sömu, embættis- eða meistarapróf í lögfræði frá viðurkenndum háskóla, framúrskarandi ritfærni á íslensku og ensku. Hæfni til að starfa sjálfstætt og í hópi, færni í mannlegum samskiptum, frumkvæði og metnaður til að ná árangri í starfi og loks var þekking og reynsla af stjórnsýslumeðferð mála æskileg í tilviki rannsóknarstarfsins en starfsreynsla í meðferð stjórnsýslumála æskileg í hinu tilvikinu.

  29. Kærandi og karlmaðurinn sem hún ber sig saman við voru ráðin til sitthvors starfsins. Hún við afgreiðslu undanþága en hann við rannsóknir. Við ráðninguna var báðum að sögn raðað í sama launaflokkinn og sama þrepið innan flokksins samkvæmt kjarasamningi Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja og Samtaka atvinnulífsins. Sá greinarmunur var þó gerður að kæranda var ákvarðað 17% álag til viðbótar við laun samkvæmt kjarasamningi, þannig að byrjunarlaun hennar námu X krónum en þeim sem hún ber sig saman við var ákvarðað 32,4% álag þannig að byrjunarlaun hans námu X krónum.

  30. Kærði hefur byggt á því að þegar litið sé heildstætt til inntaks starfa sérfræðinga sem vinna við undanþágur og þeirra sem vinna við rannsóknir sé um að ræða að meginstefnu jafnverðmæt störf í skilningi jafnréttislaga þótt nokkur eðlismunur sé á störfunum að mati kærða. Sökum þessa hafi starfsmönnum sem vinna að rannsóknum ekki verið greidd hærri laun nema á grundvelli málefnalegra sjónarmiða er lúti til að mynda að starfsreynslu, þekkingu, menntun, hversu flókin og erfið verkefni starfsmaður muni fá og fleira.

  31. Kærandi og karlmaðurinn sem hún ber sig saman við hófu störf á sama tíma, það er í maímánuði 2014. Kærandi var þá X ára en karlmaðurinn X ára. Bæði höfðu þau lokið stúdentsprófi, hann frá C og hún frá D. Hún hafði lagt stund á laganám við Háskólann í Reykjavík og lokið meistaranámi í lögfræði árið 2010 en áður hafði hún hlotið B.S. gráðu í E frá F háskóla. Karlmaðurinn hafði sótt laganám í Háskóla Íslands og lokið meistaranámi árið 2011. Hann hafði aflað sér málflutningsréttinda en hún ekki en hún bjó að nokkurri stjórnsýslureynslu eftir fjögurra ára starf hjá G en áður, fyrst eftir útskrift starfaði kærandi hjá H. Karlmaðurinn hafði unnið á lögmannsstofu frá útskrift í þrjú ár þar til hann hóf störf hjá kærða.

  32. Í ráðningarviðtölum voru umsækjendur spurðir ólíkra spurninga, annars vegar sá hópur umsækjenda sem kom til greina í starf við undanþágur og þeir sem vinna áttu við rannsóknir hins vegar. Í viðtali gerði kærandi grein fyrir starfsreynslu sinni og það bókað meðal annars að hún byggi að lítilli reynslu viðvíkjandi lögum um gjaldeyrismál en hún hefði starfs síns vegna hjá G fengist við úrlausn skuldamála og byggi að reynslu af dómsmálum er lytu að ágreiningi um gengistryggingu. Sérstaklega aðspurð greindi hún frá mjög mikilli reynslu í textavinnslu, hún ynni alla daga við að skrifa dómsúrskurði. Í viðtalinu gat hún þess aðspurð að hún vonaðist eftir launum að fjárhæð X krónur. Í ráðningarviðtali gerði karlmaðurinn grein fyrir sinni starfsreynslu þar á meðal að hann þekkti lög um gjaldeyrishöft nokkuð vel vegna fyrri starfa sinna sem einkum hafi lotið að undanþágum. Þá var hann inntur eftir reynslu af yfirferð flókinna viðskiptalegra samninga sem hann kvaðst hafa unnið að og mikið komið að gerð minnisblaða á sviði fjármunaréttar þar sem álitaefni voru greind og komist að niðurstöðu. Með sama hætti og kærandi var hann inntur eftir launahugmyndum og vísaði í þeim efnum til launa sinna á þessum tíma, sem munu hafa verið X krónur.

  33. Undir rekstri málsins hefur af hálfu kærða verið á því byggt að laun starfsmanna gjaldeyriseftirlitsins séu ákveðin með sama hætti óháð því hvort um sé að ræða konur eða karla. Öllum starfsmönnum með meistaragráðu sé raðað í sama launaflokk og sama launaþrep óháð kynferði og öllum starfsmönnum sé greitt álag ofan á grunnlaunin. Hlutfall álagsins sé ákvarðað með tilliti til málefnalegra sjónarmiða eins og menntunar, þekkingar og reynslu viðkomandi af þeim viðfangsefnum sem viðkomandi umsækjandi eða starfsmaður sé að fara að takast á hendur hverju sinni. Við þá ákvörðun fari fram mat sem byggist á hlutlægum viðmiðum sem grundvallast á upplýsingum úr umsókn, ferilskrá og starfsviðtali. Af hálfu kærða hefur jafnframt verið á því byggt að í þessu tilfelli hafi karlmaðurinn verið talinn búa yfir víðtækari þekkingu og starfsreynslu á þeim sviðum sem skipta máli við störf í gjaldeyriseftirliti kærða og því hafi honum verið ákvarðað hærra álag í samræmi við það. Hann hafi í fyrri störfum sínum öðlast reynslu og þekkingu á greiningu flókinna viðskiptalegra samninga, reynslu af ýmiss konar fjármálagerningum og fyrirtækjalögfræði sem hafi fallið vel að því starfi sem honum hafi verið ætlað að sinna við rannsóknir. Við upphaf starfa sinna hafi karlmaðurinn því getað án sérstakrar aðlögunar og tilsagnar hafið rannsókn á flóknum málum af vettvangi gjaldeyrislaga sem þörfnuðust mikillar greiningarhæfni. Því hafi honum verið ákvarðað álag við upphaf starfs, 32,4%.

  34. Samkvæmt framanskráðu þykir verða að leggja til grundvallar að ákvörðun um álag á byrjendalaun kæranda og karlmannsins sem hún ber sig saman við hafi verið tekin áður en þau hófu störf hjá kærða. Fyrir liggur að bæði fullnægðu þeim áskilnaði sem getið var í auglýsingu um störfin og hallar á hvorugt í þeim efnum. Þau eru á líkum aldri, hún ívið eldri, en þau hafa verið um það bil jafnlengi á vinnumarkaði eftir útskrift úr meistaranámi í lögfræði. Hann hafði helst reynslu á sviði fjármunaréttar sem fulltrúi á lögmannsstofu en hún reynslu af úrlausnum ágreiningsmála fyrir dómi sem aðstoðarmaður dómara, þar sem meðal annars mun hafa reynt á ágreining á sviði fjármunaréttar. Fyrir liggur að hæfni þeirra var ekki prófuð áður en ráðning var ákveðin og mat á þekkingu og reynslu þeirra virðist helst hafa verið byggt á frásögnum hvors þeirra um sig í ráðningarviðtölum. Fyrir liggur að frammistaða í starfi er einn þeirra þátta sem áhrif getur haft á fjárhæð launa sem starfsmanni eru greidd en þegar um jafnverðmæt störf er að ræða, eins og er í þessu tilviki, verða haldgóð gögn og rök að liggja því til grundvallar að unnt sé að greiða í verulegum mæli ólík byrjunarlaun áður en viðkomandi tekur til starfa. Eðli máls samkvæmt getur ekkert mat á frammistöðu legið fyrir á þeim tímapunkti auk þess sem það getur vart talist málefnalegt í þessum efnum að leggja til grundvallar ólíkar upplýsingar sem fram koma í ráðningarviðtölum þar sem umsækjendur eru spurðir ólíkra spurninga.

  35. Það er álit kærunefndar jafnréttismála að launamunur milli karla og kvenna sem sinna sambærilegum og jafn verðmætum störfum verði að byggjast á fyrirfram skilgreindum og gagnsæjum viðmiðum, svo fullnægt sé áskilnaði 1. mgr. 19. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Eins og áður gat gefa skilgreiningar starfa og hæfniskröfur í auglýsingu ekki tilefni til að gera mun á kjörum kæranda og karlmannsins. Við þær aðstæður sem uppi eru í máli þessu er það mat kærunefndar jafnréttismála að það standi kærða þannig nær að leiða að því hlutlæg rök að sá munur sem var á launakjörum kæranda og karlmannsins hafi ekki verið reistur á sjónarmiðum er varða kynferði þeirra, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 10/2008. Að mati kærunefndar hefur kærða ekki tekist slík sönnun.

  36. Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar jafnréttismála að kærði hafi brotið gegn 1. mgr. 25. gr. laga nr. 10/2008 við ákvörðun byrjunarlauna kæranda.

  37. Í ljósi niðurstöðu málsins og atvika þess og með vísan til 5. mgr. 5. gr. laga nr. 10/2008 telur kærunefnd rétt að kærði greiði kæranda kostnað við að hafa kæruna uppi og þykir hann hæfilega metinn 250.000 krónur.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði, Seðlabanki Íslands, braut gegn ákvæðum laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ákvörðun launakjara kæranda, A, við ráðningu í maí 2014.

Kærði greiði kæranda 250.000 krónur í málskostnað.

 

Björn L. Bergsson

Arnar Þór Jónsson

Grímur Sigurðsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum