Hoppa yfir valmynd
28. október 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar í 36 stundir

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra og Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra undirrituðu í dag yfirlýsingu þar sem stjórnvöld lýsa vilja til þess að kanna með tilraunaverkefni hvort unnt sé að stytta vinnutíma án launaskerðingar og ná fram gagnkvæmum ávinningi starfsfólks og stofnana.

Í tengslum við viðræður um gerð kjarasamninga ríkisins við aðildarfélög BSRB í október 2015 hafa verið ræddar mögulegar leiðir til að stuðla að styttingu vinnutíma án launaskerðingar. Í framhaldi af þessum viðræðum lýsir ríkisstjórn Íslands sig reiðubúna til að beita sér fyrir því að koma á tilraunaverkefni þar sem vinnutími verður styttur án launaskerðingar, eins og fram kemur í viljayfirlýsingunni.

Markmið tilraunaverkefnisins verður að kanna hvort stytting vinnuviku úr 40 vinnustundum á viku niður í 36 stundir leiði til gagnkvæms ávinnings starfsmanna og viðkomandi stofnana. Sérstaklega verður skoðað hvernig útfæra megi styttingu vinnutíma hjá ólíkum tegundum stofnana, þar á meðal á stofnunum þar sem unnin er vaktavinna.

Stofnaður verður starfshópur skipaður fulltrúum ráðuneyta og BSRB og mögulega fleiri aðilum sem kunna að koma að verkefninu. Starfshópnum verður falið að skilgreina nánar markmið og aðferðir við útfærslu verkefnisins og hvernig meta skuli áhrif styttri vinnutíma á heilsu og vellíðan starfsfólks, starfsanda á vinnustöðum og á þjónustu viðkomandi vinnustaða með tilliti til gæða og hagkvæmni. Áætluð lok tilraunaverkefnis munu taka mið af gildistíma kjarasamninga sem undirritaðir voru í morgun og er gert ráð fyrir að starfshópur skili skýrslu um árangur þess a.m.k. sex mánuðum áður en samningarnir renna út.


Reykjavík

28. október 2015

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta