Hoppa yfir valmynd
6. nóvember 2015 Matvælaráðuneytið

3.400 íbúðir og herbergi á Íslandi í útleigu á airbnb.com

Ráðherra og fulltrúar háskólans á Bifröst
Ráðherra og fulltrúar háskólans á Bifröst

Um 4% allra íbúða í Reykjavík eru í útleigu til ferðamanna samkvæmt nýrri skýrslu sem Háskólinn á Bifröst kynnti fyrir iðnaðar- og viðskiptaráðherra í dag. Í skýrslunni er umfang íbúðagistingar dregið fram og jafnframt settar fram tillögur sem miða að því að einfalda skráningu íbúða í því augnamiði að draga úr skattsvikum og skýra reglur.

Helstu niðurstöður skýrslunnar:

  • Hlutfall íbúða í Reykjavík sem eru leigðar til íbúðagistingar í skammtímaleigu er mjög hátt eða um 4% (en í Berlín t.d. er hlutfallið 0,4%) og hefur það haft áhrif á fasteignamarkaðinn í Reykjavík á þann hátt að í ýmsum hverfum borgarinnar er fasteignaverð hærra vegna aukinnar eftirspurnar eftir húsnæði undir íbúðagistingu. Fjölgun hótelherbergja hefur ekki haldið í við fjölgun ferðamanna og hafa þeir því þurft að leita að öðrum gistimöguleikum á Íslandi meðan á dvöl þeirra stendur.
  • Á vefsíðunni www.airbnb.com eru skráð um 3.400 herbergi og íbúðir á Íslandi. Þar af eru 1.900 herbergi og íbúðir í Reykjavík en samkvæmt upplýsingum frá Sýslumanni á höfuðborgarsvæðinu eru einungis 13% af þeim skráð með leyfi til íbúðagistingar (í gistiflokkum I og II).
  • Lög um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007 ná ekki nægilega vel utan um nýjan veruleika í íbúðagistiþjónustu. Einfalda þarf leyfisveitingaferlið þannig að auðveldara verði fyrir einyrkja að stunda þessa starfsemi löglega.
  • Reglur um skattlagningu íbúðagistingar eru ekki skýrar. Mikilvægt er að haga skattalöggjöf með þeim hætti að hvati verði til þess að stunda starfsemina löglega með tilheyrandi greiðslum skatta og gjalda.
  • Röng skráning íbúða getur haft alvarlegar afleiðingar t.d. hvað öryggi varðar og skekkir samkeppni á markaði. Opinberir aðilar verða að laga skráningarferli sitt og uppfæra miðlæga gagnagrunna um umfang íbúðagistingar.
  • Lagt er til að reglur um breytta hagnýtingu eigna í fjölbýlishúsum verði gerðar skýrari.

Stefnt er að því að leggja fram frumvarp til breytinga á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald á yfirstandandi þingi. Í þeirri vinnu verða niðurstöður skýrslunnar hafðar til hliðsjónar og jafnframt mun hún nýtast á þeim öðrum sviðum sem hún tekur til en falla ekki undir umrædd lög.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum