Hoppa yfir valmynd
6. nóvember 2015 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Dagur gegn einelti haldinn hátíðlegur

Stöndum saman gegn einelti - mynd
Dagur gegn einelti verður haldinn í fimmta sinn 9. nóvember nk. og munu Menntamálastofnun og Kópavogsbær standa sameiginlega fyrir dagskrá í leikskólanum Álfaheiði

Ár hvert er 8. nóvember helgaður baráttu gegn einelti en að þessu sinni verður dagurinn haldinn hátíðlegur þann 9. nóvember. Er það gert til að skólar geti nýtt virkan dag til að huga að þessu mikilvæga málefni.

Í tilefni dagsins mun Menntamálastofnun veita leik- og grunnskólabörnum í Kópavogi gjafir. Leikskólabörn frá tveggja ára aldri og nemendur í 1. bekk grunnskóla fá afhent endurskinsmerki, nemendur í 2. til 5. bekk fá armbönd og nemendur í 6. til 10. bekk fá skjápúða til að nota á farsíma og skjái.

Mennta- og menningarmálaráðuneyti og Menntamálastofnun hvetja skóla og aðrar stofnanir, sem og landsmenn alla, til að nýta 9. nóvember næstkomandi til að ræða hvernig hægt er að stuðla að jákvæðara samfélagi fyrir alla. Einnig eru landsmenn eindregið hvattir til undirrita þjóðarsáttmála um baráttu gegn einelti en sáttmálann má finna á síðunni gegneinelti.is . Með undirritun sinni skuldbindur fólk sig til að vinna gegn einelti og markmiðið er að fá sem flesta til að skrifa undir sáttmálann.

Dagskrá:

· 11:00 – Atriði frá Leikskólanum Álfaheiði.

· 11:10 – Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs setur dagskrána.

· 11:17 – Margrét Júlía Rafnsdóttir, verkefnisstjóri Barnaheilla-Save the Children á Íslandi og Elísabet Eyjólfsdóttir, leikskólastjóri Álfaheiðar kynna verkefnið Vinátta-Fri for Mobberi.

· 11:37 – Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra flytur ávarp og veitir hvatningarverðlaun Dags gegn einelti.

· 11:45 – Verðlaunahafi flytur ávarp.

· 11:55 – Kaffi og kruðerí.

· 12:30 – Dagskrárlok.

Fundarstjóri er Elín Lilja Jónasdóttir frá Menntamálastofnun.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum