Hoppa yfir valmynd
11. nóvember 2015 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 10/2015

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

A

gegn

DV ehf.

 

Kærandi, sem er kona, taldi að kærði hefði brotið gegn ákvæðum laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, við starfslok hennar í janúar 2015. Fyrir lá að kærandi og tveir karlkyns starfsmenn, er hættu störfum hjá kæranda á svipuðum tíma, nutu ekki sömu kjara við starfslokin. Kærunefndin taldi að kærði hefði sýnt fram á að aðrar ástæður en kynferði hefðu legið að baki þeirri tilhögun. Var því ekki talið að um hefði verið að ræða brot á ákvæðum laganna.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 11. nóvember 2015 er tekið fyrir mál nr. 10/2015 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:

  2. Með kæru, dagsettri 28. júlí 2015, kærði A þá ákvörðun DV ehf. að greiða henni ekki laun í uppsagnarfresti vegna starfsloka hennar hjá fyrirtækinu. Kærandi telur að synjunin brjóti gegn lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

  3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dagsettu 18. ágúst 2015, og jafnframt óskað eftir afriti af ráðningarsamningi kæranda. Greinargerð kærða barst með bréfi, dagsettu 31. ágúst 2015, og var hún kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 11. september 2015. Athugasemdir kæranda bárust nefndinni með bréfi, dagsettu 28. september 2015, og voru þær kynntar kærða með bréfi kærunefndar, dagsettu 29. september 2015, og jafnframt óskað eftir afriti af starfslokasamningum sem gerðir voru við þá karlkyns blaðamenn sem kærandi ber sig saman við. Athugasemdir bárust frá kærða 13. október 2015, ásamt afriti af starfslokasamningi annars karlmannsins, og voru þær kynntar kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 14. október 2015. Viðbótarathugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dagsettu 28. október 2015, og voru þær kynntar kærða með bréfi kærunefndar, dagsettu 29. október 2015. Viðbótarathugasemdir bárust frá kærða með bréfi, dagsettu 4. nóvember 2015, og voru þær kynntar kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 6. nóvember 2015. Loks bárust viðbótarathugasemdir frá kæranda með bréfi, dagsettu 9. nóvember 2015.

  4. Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

    MÁLAVEXTIR

  5. Kærandi starfaði sem blaðamaður hjá kærða frá janúarmánuði 2014 en sagði upp störfum þann 28. janúar 2015 og lét af störfum strax án þess að vinna út umsaminn uppsagnarfrest. Á sama tíma sögðu tveir karlkyns blaðamenn einnig upp störfum hjá kærða og unnu ekki heldur út uppsagnarfrestinn. Karlmennirnir fengu greiddan uppsagnarfrest án vinnuframlags en kærandi ekki. Með tölvupósti 11. febrúar 2015 fór kærandi fram á við kærða að uppgjör við hana vegna starfslokanna yrði endurskoðað, en án árangurs.

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA

  6. Kærandi greinir frá því að hún hafi sagt upp störfum hjá kærða vegna mikillar óánægju með stefnubreytingar og ritstjórn blaðsins. Einnig hafi hún verið óánægð með vinnuaðstæður sínar og upplifað það sem vanvirðingu gagnvart sér að henni hafi ekki verið séð fyrir viðunandi vinnuaðstöðu. Þá hafi hún upplifað að yfirmönnum hennar hafi ekki stafað ógn af sér, ungri konu með styttri starfsaldur á blaðinu en karlmennirnir, og því hafi
    ekki þótt ástæða til að gera við hana starfslokasamning.

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA

  7. Í greinargerð kærða er því mótmælt að í ákvörðun félagsins um að neita að greiða kæranda laun í uppsagnarfresti án vinnuframlags felist mismunun á grundvelli kynferðis. Ýmsar ástæður hafi legið að baki þeirri synjun en kynferði hafi ekki verið ein þeirra. Kærði tekur fram að það heyri til algerra undantekninga að gerðir séu starfslokasamningar við blaðamenn þegar þeir segi upp störfum að eigin frumkvæði. Þau tilvik sem kærandi vísi til séu nánast tæmandi talning á þeim starfslokasamningum sem gerðir hafa verið við þær aðstæður síðastliðin ár. Í þessum tilvikum hafi verið sérstakar aðstæður fyrir hendi sem réttlættu gerð slíkra samninga en engar ástæður hafi verið til að gera slíkt í tilviki kæranda.

  8. Kærði tekur fram að staða kæranda og þeirra karlmanna sem hún beri sig saman við sé ólík. Karlmennirnir séu með meiri starfsreynslu sem blaðamenn og starfsaldur þeirra hjá kærða við uppsögn hafi jafnframt verið töluvert lengri. Báðir hafi þeir verið starfandi blaðamenn á blaðinu en kærandi hafi skrifað inn á vef kærða. Þá hafi þeir verið, ólíkt kæranda, meðal mest áberandi blaðamanna blaðsins, mjög afkastamiklir og fréttir þeirra og leiðarar hafi verið gríðarlega mikið lesið og vinsælt efni. Kærði bendir á að kærandi byggi sjálf á því í kæru sinni, í berhögg við staðhæfingu sína um að kyn hafi ráðið för, að starfsaldur, reynsla og vitneskja hafi ráðið úrslitum við gerð starfslokasamninganna. Því virðist vera óumdeilt í málinu að staða karlkyns blaðamannanna hafi verið gjörólík stöðu kæranda. Tilvikin séu ósambærileg og því ekki hægt að gera þá kröfu að þau fái sambærilega meðferð. Kærði bendir á að aðdragandi uppsagna starfsmannanna þriggja hafi verið ólíkur sem og framsetning krafna þeirra um laun í uppsagnarfresti. Það hafi haft vægi þegar afstaða hafi verið tekin til krafna starfsmannanna.

    ATHUGASEMDIR KÆRANDA

  9. Kærandi tekur fram að óumdeilt sé að við tvo karlkyns blaðamenn hafi verið gerðir starfslokasamningar þar sem samið hafi verið um að greiða þeim laun í uppsagnarfresti án vinnuframlags á meðan kæranda hafi verið synjað um slíkt samkomulag. Það að það heyri til algerra undantekninga að gerðir séu starfslokasamningar þegar starfsmenn segi upp störfum að eigin frumkvæði réttlæti ekki að veita henni ekki sömu kjör. Kærandi telur að sjónarmið 5. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 hafi ekki verið ráðandi við töku ákvörðunar kærða. Af greinargerð kærða megi sjá að við ákvörðun um kjör við starfslok hafi ekki verið gerð tilraun til hlutlægs mats á hæfni hennar samanborið við hæfni og störf karlmannanna, þrátt fyrir að félagið beri fyrir sig að ákveðið heildarmat hafi farið fram.

  10. Kærandi bendir á það sé rangt að hún hafi eingöngu starfað við vef fjölmiðilsins líkt og kærði beri fyrir sig sem þátt sem heimili mismunun í veitingu kjara. Af rökstuðningi kærða megi ráða að skrif á vef blaðsins séu ekki jafn verðmæt og skrif á blaðinu og gerir kærandi athugasemd við það. Þá telur kærandi að það geti ekki talist lögmætur grundvöllur fyrir því að veita karlmönnunum tveimur betri kjör en henni að þeir hafi verið meðal mest áberandi blaðamanna kærða. Það að leiðarar þeirra eða efni hafi verið gríðarlega mikið lesið og vinsælt efni geti ekki talist hlutlægur þáttur við mat á stöðu þeirra og veitingu kjara við uppsögn. Í greinargerð kærða sé ekki minnst á að skrif blaðamanna á vef blaðsins séu aðgengileg öllum og afar víðlesin, andstætt skrifum í blaðinu sem þörf sé á áskrift til að lesa. Því verði að telja að starf á vef miðilsins sé í það minnsta jafnverðmætt eða sambærilegt starfi blaðamanns á blaðinu, ef ekki verðmætara.

  11. Kærandi greinir frá því að hún hafi sagt starfi sínu lausu meðal annars þar sem hún hafi upplifað að kona væri minna metin innan fyrirtækisins. Að mati kæranda hafi starfsumhverfi innan félagsins verið í andstöðu við markmið jafnréttislaga auk þess sem stjórnendur þess hafi skapað kynjaskipt vinnuumhverfi þar sem karlmönnum hafi verið veitt aukin tækifæri. Kærandi telur að kærða hafi ekki tekist að sanna að málefnaleg sjónarmið hafi verið ráðandi við töku ákvörðunar um kjör við starfslok og þar af leiðandi hafi jafnréttislögum ekki verið fylgt. Með málatilbúnaði kærða séu leiddar líkur að því að henni hafi verið mismunað á grundvelli kynferðis þar sem kærði hafi metið hana minna sem yngri konu og að atgervi hennar og persóna hafi ekki þótt jafn ógnandi og karlmannanna. Stjórnendur kærða hafi sýnt henni minni virðingu en karlmönnunum tveimur og tekið kröfu hennar um mögulega greiðslu launa í uppsagnarfresti af léttúð.

    ATHUGASEMDIR KÆRÐA

  12. Kærði ítrekar að starfsreynsla karlmannanna tveggja hafi átt þátt í því að við þá hafi verið gerðir starfslokasamningar en kynferði þeirra skipti engu máli í því sambandi. Kærði bendir á að í 5. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 sé nefnt sem dæmi að líta skuli til atriða eins og starfsreynslu þegar meta eigi hvort aðrar ástæður en kyn kunni að hafa legið að baki ákvörðun atvinnurekanda. Kærði hafnar þeirri túlkun kæranda að félagið telji skrif á vef blaðsins ekki eins verðmæt og skrif í blaðið sjálft. Kærði hafi einungis bent á þetta atriði sem eitt af mörgum til að sýna fram á ólíka stöðu kæranda og karlmannanna tveggja. Þeir hafi unnið mun lengur hjá blaðinu en kærandi og sinnt öðrum verkefnum. Kærði mótmælir því að starfsumhverfi hans sé í andstöðu við markmið jafnréttislaga og að stjórnendur hafi skapað kynjaskipt vinnuumhverfi. Þær fullyrðingar kæranda séu rangar og órökstuddar með öllu.

    NIÐURSTAÐA

  13. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna konum og körlum í launum og öðrum kjörum á grundvelli kyns og samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna starfsmönnum við uppsögn úr starfi á grundvelli kyns. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. sömu laga. Við mat á því hvort ákvæði 4. mgr. 26. gr. laganna hafi verið brotið skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Samkvæmt 18. gr. laga nr. 10/2008 skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.

  14. Mál þetta varðar launakjör kæranda og tveggja karla í uppsagnarfresti á fyrri hluta árs 2015. Karlmönnunum voru greidd laun á uppsagnarfresti án vinnuframlags, henni ekki. Kærandi starfaði hjá kærða sem blaðamaður á vef frá janúarmánuði 2014, að því er virðist á grundvelli munnlegs ráðningarsamnings. Annar karlinn mun hafa hafið störf hjá kærða í desember 2008. Í skriflegum ráðningarsamningi hans, sem dagsettur er 12. janúar 2009, greinir í starfslýsingu að hann starfi sem blaðamaður er sinni daglegum verkefnum á ritstjórn kærða. Kærði hefur upplýst að þessi starfsmaður hafi starfað lengi sem fréttastjóri blaðsins og sem ritstjórnarfulltrúi er hann fluttist til útlanda á árinu 2013 og hefur því ekki verið mótmælt af kæranda. Hinn karlinn mun hafa starfað sem blaðamaður hjá kærða í fimm mánuði á árinu 2008 og hafa hafið aftur störf í árslok 2009. Í skriflegum ráðningarsamningi hans, sem dagsettur er 28. maí 2010, segir að hann sé ráðinn sem blaðamaður og starfi á ritstjórn blaðsins. Ekkert er komið fram í málinu sem bendir til þess að í samningum neins starfsmannanna hafi verið sérstök ákvæði um kjör við starfslok.

  15. Kærandi sagði upp störfum 28. janúar 2015 og að hennar ósk lauk vinnuskyldu hennar þá þegar. Fyrir liggur að í tilefni af starfslokum annars karlmannsins var undirritað skriflegt samkomulag milli hans og kærða 7. janúar 2015 en gert mun hafa verið munnlegt samkomulag við hinn karlmanninn, er sagði einnig upp störfum um svipað leyti. Í báðum tilfellum var samið um að kærði greiddi laun í tiltekinn tíma án vinnuskyldu þessara starfsmanna. Hefur kærði upplýst að samkomulagið við síðarnefnda starfsmanninn hafi verið sambærilegt skriflegu samkomulagi við þann fyrrnefnda.

  16. Fyrir liggur að starfsmennirnir þrír nutu ekki sömu kjara við starfslok sem bar að á svipuðum tíma. Kærði hefur skýrt þessa tilhögun svo að eftir heildarmat á aðstæðum hafi hann vikið frá þeirri reglu, sem hann hafi almennt viðhaft, að afþakka ekki vinnuframlag starfsmanns í uppsagnarfresti. Þær aðstæður sem hafi réttlætt slíkt í þessu tilviki hafi verið annars vegar starfsaldur, en báðir karlmennirnir hafi unnið góða og vandaða vinnu í þágu félagsins í mörg ár, og hins vegar ólga á vinnustaðnum eftir breytingar hjá félaginu, en þessir starfsmenn hafi báðir verið mjög opinskáir í afstöðu sinni gegn breytingunum. Kærandi á hinn bóginn hafði unnið í rúmlega eitt ár hjá kærða, auk þess sem hún hafi ekki barist með sambærilegum hætti gegn breytingum þeim sem kærði var að hrinda í framkvæmd.

  17. Með vísan til þessa telur kærunefnd jafnréttismála að kærði hafi sýnt fram á að aðrar  ástæður en kynferði hafi legið að baki mismunandi kjörum kæranda annars vegar og karlmannanna tveggja hins vegar við uppsögn þessara þriggja starfsmanna í janúarmánuði 2015. Því verður ekki talið að kærði hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, við ákvörðun starfskjara á uppsagnarfresti kæranda.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði, DV. ehf., braut ekki gegn ákvæðum laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við starfslok kæranda í janúar 2015.

 

Erla S. Árnadóttir

Björn L. Bergsson

Þórey S. Þórðardóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum