Hoppa yfir valmynd
16. nóvember 2015 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Guðjón Friðriksson hlaut verðlaun Jónasar Hallgrímssonar

Auk þess hlaut Bubbi Morthens sérstaka viðurkenningu sem veitt er á degi íslenskrar tungu
IMG_9079

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra veitti í dag Guðjóni Friðrikssyni sagnfræðingi verðlaun Jónasar Hallgrímssonar, sem veitt eru á degi íslenskrar tungu. Þá hlaut Bubbi Morthens sérstaka viðurkenningu fyrir stuðning við íslenska tungu.

IMG_9087 "Guðjón Friðriksson hefur með verkum sínum markað eftirminnileg spor í íslenska bókmenntasögu og breytt viðmiðum okkar í ritun sagnfræði og ævisagna. Aðferð hans er oft á tíðum sú að sviðsetja atburði og með því móti tekst honum að glæða frásögnina lífi svo minnir helst á spennandi skáldverk þótt aldrei sé slakað á fræðilegum kröfum. Stíll Guðjóns er þróttmikill og fágaður í senn, ljóðrænn og skáldlegur, en umfram allt einstaklega læsilegur og heillandi. Það má telja víst að Jónas Hallgrímsson hefði kunnað að meta þannig stílbrögð“ sagði meðal annars í röstuðningi ráðgjafarnefndar dags íslenskrar tungu, sem gerir tillögu til mennta- og menningarmálaráðherra um verðlaunahafa. Verðlaunahafi fékk 700 þúsund kr. í verðlaun, ritið Teiknibókina og skrautritað verðlaunaskjal. Íslandsbanki veitti verðlaunaféð eins og hann hefur gert frá upphafi.

Í rökstuðningi um viðurkenningu til Bubba Morthens sagði meðal annars: „Bubbi Morthens hefur verið einn af fremstu og afkastamestu tónlistarmönnum landsins síðan fyrsta platan hans, Ísbjarnarblús, kom út árið 1980. Hann hefur alla tíð lagt áherslu á vandaða textasmíð á kraftmikilli íslensku, hvort heldur sem hann hefur sungið um verbúðarlífið, ástina eða brýn samfélagsmál". Bubbi Morthens fékk í viðurkenningarskyni listaverk eftir Brynhildi Þorgeirsdóttur.

IMG_9074

IMG_9072

IMG_9088

Í ráðgjafarnefnd sátu Gerður Kristný, formaður, Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson og Gunnþórunn Guðmundsdóttir.

Rökstuðningur ráðgjafanefndar um Guðjón Friðriksson:

„Guðjón Friðriksson sagnfræðingur er fæddur í Reykjavík 9. mars árið 1945. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1965, BA-prófi í sagnfræði og íslensku frá Háskóla Íslands árið 1970 og prófi í uppeldis- og kennslufræði ári síðar. Guðjón starfaði við kennslu á árunum 1970 til 1975 og blaðamennsku frá 1976 til 1980, var ritstjóri Sögu Reykjavíkur 1985 til 1990 og hefur allar götur síðan helgað sig ritlistinni.

Fyrstu bækur Guðjóns voru Forsetakjör 1980 og Vigdís forseti en síðar átti hann eftir að fjalla um fleiri forseta og íslenska frumkvöðla í verkum sínum. Saga Reykjavíkur – Bærinn vaknar var fyrsta stórvirki Guðjóns og kom út í tveimur veglegum bindum árin 1991 og 1994. Þar fjallar hann um Reykjavík á árunum 1870 til 1940 á afar skilmerkilegan en jafnframt einstaklega skemmtilegan og aðgengilegan hátt. Fyrra bindið færði honum Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fræðirita. Næst tók Guðjón sér fyrir hendur að rita Sögu Jónasar frá Hriflu, sem út kom í þremur stórum bindum og hlaut afbragðsviðtökur. Með því verki varð mörgum ljóst að nýr tónn var sleginn í ritun íslenskra ævisagna. Ekki aðeins með ítarlegri og strangri fræðimennsku, heldur var stíllinn svo vandaður og læsilegur að eftir því var tekið og einn gagnrýnandi tók svo til orða að vonandi markaði verkið „upphaf að blómaskeiði í þessari vanræktu bókmenntagrein.“ Á eftir þessari merku ævisögu ritaði Guðjón tvær litlar en greinargóðar bækur um Reykjavík og varð í kjölfarið einn eftirsóttasti fyrirlesari og leiðsögumaður um gömlu Reykjavík. Næsta stórvirki var þegar í vinnslu á skrifborðinu og skilaði sér á árunum 1997-2000, Einar Benediktsson – ævisaga. Í verkinu fullkomnaði Guðjón stílinn sem hann hafði tamið sér í fyrri verkum og hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin öðru sinni fyrir fyrsta hlutann. Hér verða ekki talin upp öll verk Guðjóns Friðrikssonar en tvö önnur stórvirki verður ekki komist hjá að nefna. Jón Sigurðsson – ævisaga kom út í tveimur bindum árin 2002 og 2003 en fyrir seinna bindið hlaut hann Íslensku bókmenntaverðlaunin í þriðja sinn. Ég elska þig stormur – ævisaga Hannesar Hafstein kom svo út árið 2005 og sver sig í ætt við fyrri verkin. Þá má ennfremur geta þess að Guðjón hefur ritað bækur um forsetatíð Ólafs Ragnars Grímssonar, um Kaupmannahöfn sem höfuðborg Íslands og Sögu Faxaflóahafna.

Guðjón Friðriksson hefur með verkum sínum markað eftirminnileg spor í íslenska bókmenntasögu og breytt viðmiðum okkar í ritun sagnfræði og ævisagna. Aðferð hans er oft á tíðum sú að sviðsetja atburði og með því móti tekst honum að glæða frásögnina lífi svo minnir helst á spennandi skáldverk þótt aldrei sé slakað á fræðilegum kröfum. Stíll Guðjóns er þróttmikill og fágaður í senn, ljóðrænn og skáldlegur, en umfram allt einstaklega læsilegur og heillandi. Það má telja víst að Jónas Hallgrímsson hefði kunnað að meta þannig stílbrögð.“

Rökstuðningur ráðgjafanefndar um Bubba Morthens:

„Bubbi Morthens hefur verið einn af fremstu og afkastamestu tónlistarmönnum landsins síðan fyrsta platan hans, Ísbjarnarblús, kom út árið 1980. Hann hefur alla tíð lagt áherslu á vandaða textasmíð á kraftmikilli íslensku, hvort heldur sem hann hefur sungið um verbúðarlífið, ástina eða brýn samfélagsmál. ,,Bubbi hefur alltaf getað ort með hjartanu,“ sagði Gauti Kristmannsson í gagnrýni sinni í Ríkisútvarpinu nú í haust um nýútkomna ljóðabók Bubba, Öskraðu gat á myrkrið. Þjóðin hefur fyrir löngu áttað sig því varla er til sá Íslendingur sem ekki kann texta eftir Bubba Morthens, enda eru þeir sungnir í útilegum, veislum, á tónleikum og við jarðarfarir. Áhrif Bubba á aðra tónlistarmenn eru óumdeilanleg og hafa þau án efa orðið mörgum hvatning til að syngja líka á íslensku. Þess vegna er við hæfi að Bubbi Morthens fái sérstaka viðurkenningu í dag.“

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira