Hoppa yfir valmynd
17. nóvember 2015 Utanríkisráðuneytið

EES-ráðið fundar um framkvæmd EES-samningsins

EES-ráðið fundar í Brussel
EES-ráðið fundar í Brussel

EES-ráðið fundaði í Brussel í morgun. Sendiherra Íslands í Brussel, Bergdís Ellertsdóttir, sat fundinn fyrir hönd Íslands, auk fulltrúa Liechtenstein, Noregs, aðildarríkja ESB, framkvæmdastjórnar ESB, EFTA-skrifstofunnar og Eftirlitsstofnunar EFTA.

Mat á framkvæmd EES-samningsins í heild sinni var meginefni fundarins og var farið yfir stöðu upptöku gerða í EES-samninginn. Ísland, Noregur og Liechtenstein lýstu því yfir í sameiginlegu ávarpi að EES-samningurinn hafi gegnt vel því meginhlutverki að víkka innri markað ESB og fjórfrelsið til EES/EFTA-ríkjanna. Þetta hafi haft jákvæð áhrif á hagvöxt á svæðinu og verið öllum samningsaðilum til hagsbóta. Ekki megi þó taka EES-samningnum sem sjálfsögðum hlut heldur verði að gæta að framkvæmd hans og að hann sé forgangsmál. Sendiherra Íslands lýsti því yfir að vel gangi að bæta upptöku og innleiðingu Íslands á EES-gerðum og að þeirri vinnu verði framhaldið.
Fjallað var sérstaklega um innri markað fyrir vöru og þjónustu og fagnaði sendiherra Íslands nýrri stefnu Evrópusambandsins á því sviði. Sendiherra sagði það sérstaklega jákvætt hversu mikla áherslu Evrópusambandið leggi á betri reglusetningu og upplýsti í því sambandi fundargesti um að forsætisráðherra Íslands hafi í september 2013 sett á fót nefnd sem hefur m.a. það hlutverk að vera til ráðgjafar varðandi framkvæmd á stefnu ríkisstjórnarinnar um einfaldara og skilvirkara regluverk fyrir atvinnulífið. Jafnframt var lagt til að sá umræðugrundvöllur sem til staðar er fyrir EES/EFTA-ríkin til að gefa framkvæmdastjórninni álit sitt á málefnum innrimarkaðarins verði endurskoðaður til þess að gera umræðurnar árangursríkari.

Sendiherra sat einnig fund EES/EFTA-ríkjanna með ráðgjafarnefnd og þingmannanefnd EFTA þar sem greint var frá meginefni EES-ráðsfundarins og spurningum þingmanna og fulltrúa atvinnulífs um EES-samstarfið svarað.

Í dag fór auk þess fram reglubundið pólitískt samráð EES/EFTA-ríkjanna og ESB um utanríkismál þar sem rætt var um hryðjuverkaógnir, flóttamannavandann, málefni Sýrlandsog ástand mála í Rússlandi og Úkraínu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira