Hoppa yfir valmynd
17. nóvember 2015 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Samráð um breytingu á reglugerð um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra

Mennta- og menningarmálaráðuneyti hefur í samráði við Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra undirbúið eftirfarandi t illögu um breytingu á reglugerð Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra , nr. 1058/2003 ásamt síðari breytingum.

Tillagan fer nú í opið samráðsferli á vef ráðuneytisins þar sem almenningi gefst kostur á að gera athugasemdir.

Þær breytingar, sem felast í tillögunni, miða að því að sett verði viðmið um forgangsröðun umsókna um táknmálstúlkaþjónustu.

Helstu nýmæli reglugerðarinnar eru eftirfarandi:

- Fyrir desember ár hvert mun Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra gera tillögu til

ráðherra um skiptingu fjárveitingar næsta árs í eftirfarandi flokka:

  1. Táknmálstúlkaþjónusta vegna hagsmunagæslu notenda.
  2. Táknmálstúlkaþjónusta vegna velferðar, heilsu og félagslegrar þátttöku notenda.
  3. Táknmálstúlkaþjónusta vegna þátttöku við aðrar aðstæður.

- Samskiptamiðstöð mun auglýsa eða fela þar til bærum aðila að auglýsa eftir umsóknum frá notendum um táknmálstúlkaþjónustu í ofangreindum flokkum vegna hvers 6 mánaða tímabils. Þetta fyrirkomulag gerir notendum kleift að sækja um táknmálstúlkaþjónustu fram í tímann ef fyrirséð er með löngum fyrirvara að umsækjandi þarf á táknmálstúlkaþjónustu að halda. Með þessu er þó ekki ætlunin að gera það að skilyrði að umsækjendur sæki um með svo löngum fyrirvara heldur geta umsækjendur líkt og áður sótt um táknmálstúlkaþjónustu allt fram til þess tíma þegar táknmálstúlkaþjónusta á að fara fram.

- Ef fleiri umsóknir um táknmálstúlkaþjónustu berast um táknmálstúlkaþjónustu í tilteknum flokki en hægt er að sinna miðað við fjárveitingu mun Samskiptamiðstöð forgangsraða umsóknum notenda. Í forgangi verða umsóknir um táknmálstúlkaþjónustu sem veitt er vegna aðstæðna þar sem þjónustan er forsenda þess að umsækjandi geti staðið jafnfætis öðrum borgurum um réttindi sín og skyldur.

Frestur til að gera athugasemdir eða senda inn umsagnir um drögin er til 27. nóvember 2015. Umsagnir og/eða athugasemdir sendist til mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Sölvhólsgötu 4, 101 Reykjavík, eða á netfangið [email protected] merkt í efnislínu: Breyting á reglugerð um Samskiptamiðstöð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira