Hoppa yfir valmynd
18. nóvember 2015 Heilbrigðisráðuneytið

Hátt í 200 manns ræddu nýsköpun og tækni í velferðarþjónustu

Fjögur áherslusvið stefnu í nýsköpun og tækni
Fjögur áherslusvið stefnu í nýsköpun og tækni

Þátttaka var góð og líflegar umræður sköpuðust á vinnustofu sem velferðarráðuneytið efndi til í dag til að fjalla um nýsköpun og tækni í velferðarþjónustu og lausnir framtíðarinnar á því sviði. Stefnumótun í velferðartækni, aðgerðir og nýjar lausnir voru til umfjöllunar.

„Ég set þessa stefnu og áætlun fram af metnaði og í þeirri trú að hún eigi eftir að hjálpa okkur til að ná þangað sem við ætlum okkur“ sagði Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, við upphaf vinnustofunnar sem hún setti formlega eftir að hafa farið vítt yfir sviðið og kynnt þá stefnumörkun sem unnið hefur verið að fyrir forgöngu ráðherra um nokkurt skeið.

Eygló HarðardóttirRáðherra sagði meðal annars að í framtíðinni muni þeir sem þurfa á velferðarþjónustu að halda ekki sætta sig við þær lausnir sem notast hafi verið við á síðustu árum og áratugum og taki fremur mið af þörfum skilgreindra hópa fremur en einstaklinga. Slíkar lausnir verði ekki teknar gildar: „Nei, við þurfum að bjóða upp á einstaklingsbundnar lausnir sem taka að mið af þörfum hvers og eins og eru því eins sveigjanlegar og nokkur kostur er. Öldruðum mun fjölga mikið sem hlutfall af mannfjölda og á næstu árum og áratugum verða vart nógu margar vinnufærar hendur til þess að framkvæma öll þau verk sem þarf að vinna. Við þurfum því að huga að mörgu, til dæmis því hvernig getum við aðstoðað fólk betur til þess að lifa innihaldsríku og gefandi lífi. Við þurfum einnig að skoða samspil atvinnulífs og umönnunar, samstarf fjölskyldu við hagsmunaaðila, almannaheillasamtök, ríki og sveitarfélög þegar velferðarþjónusta er annars vegar.  Við þurfum með öðrum orðum að hugsa út fyrir boxið eða að upphugsa nýtt innihald í boxið.“

Þór Garðar Þórarinsson, sérfræðingur í velferðarráðuneytinu, og Halldór S. Guðmundsson, framkvæmdastjóri Öldrunarheimila Akureyrarbæjar, kynntu á vinnustofunni í dag helstu áherslusvið nýrrar stefnu á sviði velferðartækni og eru glærur frá erindi þeirra aðgengilegar hér.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira