Hoppa yfir valmynd
19. nóvember 2015 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Ráðstefna bandarísku hugveitunnar Atlantic Council um orku- og efnahagsmál í Istanbúl í Tyrklandi.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, tók í dag þátt í pallborðsumræðum um orkumál á ráðstefnu bandarísku hugveitunnar  Atlantic Council um orku- og efnahagsmál sem haldin er í Istanbúl í Tyrklandi. Ásamt ráðherra tóku þátt í pallborðinu Miguel Arias Cañete, orkumálastjóri Evrópusambandsins og Melanie Kenderdine, skrifstofustjóri úr bandaríska orkumálaráðuneytinu. 

Ráðherra ræddi árangur Íslands í orkumálum á undanförnum árum og lagði áherslu á nýtingu jarðvarma sem hefði gert Íslendinga nær óháða innfluttum orkugjöfum til húshitunar fyrir um 40 árum síðan. Auk þess ræddi ráðherra þá sérþekkingu sem Íslendingar hafa í þeim efnum og þau útflutningstækifæri sem hún hefur skapað um allan heim.  
Ráðherra lagði einnig áherslu á að til að takast á við loftslagsáhrif af orkuvinn slu væri full ástæða fyrir lönd heims að horfa meira til innlendra sjálfbærra orkugjafa á borð við jarðhita, sólar- og vindorku og nefndi m.a. Tyrkland í því samhengi sem í jarðhita nýtir einungis um 500 MW af þeim 30.000 MW sem landið er talið búa yfir. En á sama tíma eru Tyrkir verulega háðir innflutningi á orkugjöfum til raforkuframleiðslu og húshitunar. Ráðherra lagði auk þess áherslu á mikilvægi nýsköpunar og þess að vera óhrædd við að tileinka sér nýjar tæknilausnir sem spara orku, ekki síst í samgöngum. 

Síðdegis í dag tók Ragnheiður Elín þátt í hringborðsumræðum á ráðherrafundi um orkuöryggi þar sem saman voru komnir ráðherrar á sviði orku-, efnahags-, fjármála-, utanríkis- og  viðskiptamála frá Írak, Albaníu, Tyrklandi, Evrópusambandinu, Úkraínu, Rúmeníu, Pakistan, Búlgaríu, Litháen, Möltu, Tékklandi, Makedóníu og Afganistan. 

Í gær fundaði ráðherra með fulltrúum EBRD (e. European Bank for Reconstruction and Development) og heimsótti tyrkneska fyrirtækið Zorlu Holding sem hefur fjárfest í orkuvinnslu í Tyrklandi með Rarik og EFLU, verkfræðistofu. Ferð ráðherra til Istanbúl lýkur á morgun.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira