Hoppa yfir valmynd
24. nóvember 2015 Forsætisráðuneytið

Jafnréttisþing 25. nóvember: Kynlegar myndir

Jafnrétti
Jafnrétti

Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra og Jafnréttisráð boða til jafnréttisþings sem haldið verður á Hilton Reykjavík Nordica á morgun miðvikudaginn 25. nóvember og stendur það yfir frá klukkan 8:30-17:15. Í ár er áherslan lögð á stöðu kvenna og kynjaðar birtingarmyndir á opinberum vettvangi en markmiðið er að varpa ljósi á ólíka stöðu kynjanna í fjölmiðlum og kvikmyndum annars vegar og hinsvegar að fjalla um umfang og eðli kynbundinnar hatursorðræðu. Jafnréttisþing er að þessu sinni haldið í samstarfi við menntamálaráðuneytið og fjölmiðlanefnd.

Fjöldi fyrirlesara verður með erindi á þinginu og leggur Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra lögbundna skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála árin 2013-2015 fyrir þingið. Aðalfyrirlesarar þingsins eru að þessu sinni Maria Edström, lektor við rannsóknarstofnun um fjölmiðla og upplýsingamál við Háskólann í Gautaborg, og Anna Serner, forstöðumaður sænsku kvikmyndamiðstöðvarinnar, en Anna hefur í starfi sínu haft mjög jákvæð áhrif á stöðu kvenna innan sænska kvikmyndageirans.

Greining á hlut kvenna og karla sem viðmælendum fjölmiðla

Í gær voru niðurstöður rannsóknarinnar Global Media Monitoring Project (GMMP) kynntar og sýna þær að enn hallar á hlut kvenna í fjölmiðlum víða um heim. Í rannsókninni  kemur meðal annars fram að konur á Íslandi eru síður umfjöllunarefni fjölmiðla en kynsystur þeirra á hinum Norðurlöndunum. Hlutur kvenna hér á landi er 20% á meðan hann er frá 23%-31% hjá frændþjóðum okkar, en hæst er hlutfallið í Svíþjóð og konur því frekar umfjöllunarefni í fjölmiðlum þar í landi.  Niðurstöður rannsóknarinnar verða kynntar á Jafnréttisþinginu á morgun ásamt því sem Rósa Guðrún Erlingsdóttir, sérfræðingur í velferðarráðuneytinu, kynnir viðmælendagreiningu sem Fjölmiðlavaktin vann fyrir ráðuneytið og greinir hlut kvenna og karla sem viðmælenda í fréttum og fréttatengdum þáttum hjá RÚV og 365 miðlum.

Upplýstar byggingar – tákn um von og bjarta framtíð án ofbeldis

Jafnréttisþing er að þessu sinni haldið á alþjóðlegum baráttudegi um afnám alls ofbeldis gegn konum. 25. nóvember markar upphaf sextán daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi sem lýkur á mannréttindadegi Sameinuðu þjóðanna þann 10. desember næstkomandi. Í tilefni þessa verða merkar byggingar víðsvegar um heiminn lýstar upp með appelsínugulum lit að kvöldi 25. nóvember og er liturinn táknrænn fyrir von og bjarta framtíð kvenna og stúlkna án ofbeldis. Harpa verður þannig upplýst  af þessu tilefni og þar sem félags- og húsnæðismálaráðherra boðar til jafnréttisþings þennan sama dag verða af því tilefni velferðarráðuneytið og Hilton Nordica Reykjavík þar sem þingið fer fram einnig lýst upp í appelsínugulum lit.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira