Hoppa yfir valmynd
24. nóvember 2015 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Viðurkenningarfyrir æskulýðsstarf

Viðurkenningunum er ætlað að vekja athygli á því sem er til fyrirmyndar í æskulýðsstarfi á Íslandi og vera hvatning til þróunar, nýsköpunar og þátttöku.

Æskulýðsráð veitti nýlega viðurkenningar fyrir æskulýðsstarf. Viðurkenningunum er ætlað að vekja athygli á því sem er til fyrirmyndar í æskulýðsstarfi á Íslandi og vera hvatning til þróunar, nýsköpunar og þátttöku. Aðstoðarmaður menntamálaráðherra, Jóhannes Stefánsson, veitti viðurkenningarnar fyrir hönd Æskulýðsráðs á ráðstefnunni Íslenskar æskulýðsrannsóknir sem haldin var í Menntavísindasviði Háskóla Íslands.

Hreiðar Már Árnason hlaut viðurkenningu í flokknum Ungt fólk sem lagt hefur alúð við þátttöku sína í æskulýðsstarfi eða nýtt reynslu sína úr æskulýðsstarfi á öðrum sviðum þjóðlífsins.

Ruth Jörgensdóttir Rauterberg hlaut viðurkenningu í flokknum Aðilar sem sinnt hafa nýsköpun eða þróun í æskulýðsstarfi.

Sæmundur Runólfsson hlaut viðurkenningu í flokknum Starfsmenn eða sjálfboðaliðar í æskulýðsstarfi.

Sæmundur Runólfsson, Hreiðar Már Árnason, Ruth Jörgensdóttir Rauterberg og Jóhannes Stefánsson. Ljósmynd: Ragnheiður Sigurðardóttir

Hér er tilkynning Æskulýðsráðs í heild sinni:

"Það sem fær athygli, það vex. Það sem er hlúð að, það blómstrar". Æskulýðsráð veitir í ár viðurkenningar fyrir æskulýðsstarf. Viðurkenningunum er ætlað að vekja athygli á því sem er til fyrirmyndar í æskulýðsstarfi á Íslandi og vera hvatning til þróunar, nýsköpunar og þátttöku. Aðstoðarmaður menntamálaráðherra, Jóhannes Stefánsson, veitti viðurkenningarnar fyrir hönd Æskulýðsráðs á ráðstefnunni Íslenskar æskulýðsrannsóknir sem haldin var í Menntavísindasviði Háskóla Íslands.

Hér að neðan má sjá þá flokka er veittar voru viðurkenningar fyrir:

1. Ungt fólk sem lagt hefur alúð við þátttöku sína í æskulýðsstarfi eða nýtt reynslu sína úr æskulýðsstarfi á öðrum sviðum þjóðlífsins.

Hreiðar Már Árnason hefur í gegnum árin verið ötull talsmaður ungmennalýðræðis og þess að raddir ungs fólks fái að heyrast í okkar samfélagi. Hreiðar hefur komið víða við, margir kannast við hann sem þjálfari Morfís liða.

Hann kom að tók þátt í undirbúningsstarfi fyrir stofnun Sambands Íslenskra Framhaldsskólanema (SÍF), setið í stjórn hagsmunasamtaka framhaldsskólanema í Evrópu og síðar setið sem formaður Landssambands Æskulýðsfélaga. Hreiðar vinnur nú hjá Hinu húsinu þar sem hann heldur áfram að hlúa að og efla ungt fólk til dáða.

2. Aðilar sem sinnt hafa nýsköpun eða þróun í æskulýðsstarfi. Hægt að tilnefna einstaklinga, félög, hópa eða stofnanir.

Ruth Jörgensdóttir Rauterberg hlýtur viðurkenningu í þessum flokki fyrir vinnu sína við að þróa tómstundastarf fyrir alla. Hún hefur frá árinu 2007 unnið í Þorpinu á Akranesi að því að efla þátttöku fatlaðra barna í tómstundastarfi. Aðalmarkmið hennar í starfi hefur verið að efla tengsl fatlaðra barna í klúbbastarfi Þorpsins við ófatlaða jafnaldra sína.

Ruth hefur frá árinu 2009 stýrt klúbbastarfi fyrir 10-12 ára börn á Akranesi undir heitinu ,,Gaman saman”. ,,Gaman saman” er samvinnuverkefni þar sem áhersla er á tómstundir fyrir alla. Þar geta allir tekið þátt og notið sín á eigin forsendum, allir eru virkir og framlag hvers og eins er mikilvægt fyrir hópinn. Þar liggur kjarni öflugs æskulýðsstarfs að mati Æskulýðsráðs.

3. Starfsmenn eða sjálfboðaliðar í æskulýðsstarfi sem skilað hafa merki ævistarfi eða á annan hátt skarað fram úr.

Sæmundur Runólfsson hlýtur viðurkenningu fyrir ævistarf í þágu æskulýðsstarf á Íslandi. Hann lét af störfum sem framkvæmdarstjóri Ungmennafélags Íslands (UMFÍ) síðast liðið vor eftir ríflega 23 ára starf. Sæmundur tók til starfa sem framkvæmdarstjóri þann 1. janúar árið 1992. Hann hefur setið í stjórn UMFÍ, verið framkvæmdarstjóri Landsmóts UMFÍ í Mosfellsbæ árið 1990.

Hann var meðal annars formaður UMF Drangs í Vík 1977 – 1983, sat í stjórn Íslenskra getrauna 1992 – 2009, íþróttanefnd ríkisins 1992 – 2004, sat í stjórn Æskulýðsvettvangsins 2007 - 2015 og þar af formaður frá 2012-2015. Sæmundur er kröftugur og ósérhlífinn einstaklingur sem ávallt hefur verið til taks fyrir ungmennafélagshreyfinguna og haft hagsmuni hennar að leiðarljósi, því hlýtur hann þessa viðurkenningu.

Stjórn Æskulýðsráð skipa:

Hilmar Freyr Kristinsson, formaður

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, varaformaður

Eygló Rúnarsdóttir,

Hermann Sigurðsson,

Jóhann Þorsteinsson,

Kristín Björnsdóttir,

Sabína Steinunn Halldórsdóttir


 

Description: https://ci6.googleusercontent.com/proxy/RnNZfQn2o2xpggJQqefCOervMbPIci5mujDPJnvl43kv6Rtxjyh5gHN_JKVzeU-aaGz3pePFgxfoAAtZJZNx8mveVTc-11j98EfuAJVcumUenA=s0-d-e1-ft#https://ssl.gstatic.com/ui/v1/icons/mail/images/cleardot.gif

 

 

 


 Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira