Hoppa yfir valmynd
25. nóvember 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ávarp ráðherra við upphaf Jafnréttisþings 2015

Ávarp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra

Góðir gestir,

Ég býð ykkur öll velkomin til jafnréttisþings.

Til þingsins er boðað samkvæmt ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og hlutverk mitt sem ráðherra jafnréttismála er að leggja fyrir þingið skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála á helstu sviðum samfélagsins. Skýrslan, sem nær til áranna 2013–2015, er aðgengileg á heimasíðu velferðarráðuneytisins og spannar efni hennar að venju afar vítt svið en á 100 ára afmælisári kosningaréttar íslenskra kvenna er í inngangi fjallað sérstaklega um völd og áhrif karla og kvenna í samfélagi okkar – á vinnumarkaði, í stjórnmálum og efnahagslífi.

Í skýrslunni er einnig lagt mat á stöðu og árangur þeirra verkefna sem tilgreind voru í framkvæmdaáætlun stjórnvalda í jafnréttismálum til ársins 2014 og henni fylgir viðauki um verkefni Jafnréttisráðs.

Framundan er spennandi dagskrá þar sem fjallað verður um fjölmargar hliðar jafnréttismála en megináhersla þessa þings er á stöðu kvenna og karla og kynjaðar birtingarmyndir á opinberum vettvangi.  Á þinginu munum við varpa ljósi á ólíka stöðu kvenna og karla í fjölmiðlum og kvikmyndum annars vegar og hins vegar á umfang og eðli kynbundinnar hatursorðræðu.  Hlutverk þingsins er að efna til samræðna milli stjórnvalda og þjóðar um kynjajafnrétti og hér á öllum að gefast tækifæri til að hafa áhrif á stefnu stjórnvalda á sviði jafnréttismála.

Markmið jafnréttisþings er ekki eingöngu að vekja athygli á að kynjajafnrétti skipti máli við alla stefnumótun stjórnvalda, heldur einnig á þeirri staðreynd að með jafnréttissjónarmið að leiðarljósi getum við öll færst nær okkar sameiginlega markmiði um samfélag réttlætis og lýðræðis. Fyrir okkur sem störfum að jafnréttismálum á vettvangi hins opinbera lífs er þátttaka ykkar afar mikilvæg. Ég hlakka til að kynna mér það sem hér mun fara fram og vil þakka öllum þeim fjölmörgu sem sitja þingið fyrir að leggja okkur lið. 

Þingið er að þessu sinni haldið á alþjóðlegum baráttudegi um afnám alls ofbeldis gegn konum. Tuttugasti og fimmti nóvember markar upphaf 16 daga átaksins gegn kynbundu ofbeldi sem lýkur á mannréttindadegi Sameinuðu þjóðanna þann 10. desember næstkomandi.  Kynbundnu ofbeldi hefur verið líkt við heimsfaraldur smitsjúkdóma því að kynbundið ofbeldi er útbreitt mannréttindabrot sem á sér ýmsar birtingarmyndir og á sér stað í öllum samfélögum og á öllum samfélagsstigum. Hér í dag munum við fjalla um þá birtingarmynd ofbeldis sem við sjáum daglega á opinberum vettvangi. Ofbeldið birtist okkur sem hatursorðræða á netinu sem beinist gegn einstaklingum af báðum kynjum og þegar hún beinist að konum er hún oftar en ekki kynjuð, en konur verða mun frekar fyrir hatursfullum áróðri á samfélagsmiðlum á grundvelli kynferðis. Það sem einkennir hatursorðræðu er að gerandi sendir þolanda meiðandi skilaboð með vísan í stöðu beggja í samfélaginu.

Hatursorðræða er sett fram af mörgum ólíkum aðilum sem ala á sams konar hatri og fordómum gegn ákveðnum aðilum í samfélaginu og hún getur haft alvarlegar afleiðingar – hún getur leitt til hatursglæpa eins og við þekkjum gegn til dæmis innflytjendum og hún hefur skaðleg áhrif á möguleika kvenna til jafnra áhrifa og þátttöku á öllum sviðum samfélagsins.

Lýðræði snýst ekki eingöngu um kosningarétt og þau sjálfsögðu mannréttindi að geta haft áhrif á samfélagsþróun – lýðræði snýst einnig um að við eigum öll að eiga jafna möguleika á þátttöku. Orð hafa áhrif og orð eru til alls fyrst. Ef við leyfum niðurlægjandi og meiðandi tón að grassera í umræðunni fer hann að þykja sjálfsagður og vinnur þannig gegn markmiðum okkar um jöfn tækifæri allra til þátttöku í lýðræðislegri umræðu. Hatursorðræða á netinu grefur undan lýðræðinu og kallar á aðgerðir til dæmis hvað varðar dreifingu upplýsinga og nektarmynda vegna þess að hún gengur gegn friðhelgi einstaklinga og einkalífsins og elur á kynjamismunun. Við þurfum einnig að ræða hvenær geti talist nauðsynlegt að takmarka tjáningarfrelsið og við þurfum að ræða hvernig við getum komið böndum á hatursorðræðu á netinu þar sem gerendur eiga auðvelt með að komast hjá lögum og reglum, til dæmis með því að vista klámsíður í löndum með takmarkaða löggjöf og oftar en ekki fela þeir sig í skjóli nafnleysis.

Í ár höfum við minnst þess með veglegum hætti að 100 ár eru liðin frá því að íslenskar konur, 40 ára og eldri, fengu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Það hefur verið virkilega gefandi og skemmtilegt að skynja þann ótrúlega kraft sem einkennt hefur alla umræðu um jafnréttismál og þá fjölmörgu viðburði sem haldnir hafa verið til að minnast tímamótanna. Lokaviðburður afmælisársins var alþjóðleg ráðstefna sem haldin var í Hörpu dagana 22.–23. október sl. Ráðstefnan bar yfirskriftina Borgaraleg réttindi kvenna. Sjónum var annars vegar beint að baráttunni fyrir almennum kosningarétti og þróun borgaralegra réttinda kvenna á þeim hundrað árum sem liðin eru og hins vegar var leitast við að svara þeirri spurningu hvaða ógnir steðji að borgaralegum réttindum kvenna í dag. Það sem kom fram á ráðstefnunni var verulega upplýsandi og ljóst að  margt hefur áunnist í íslensku samfélagi en engu að síður er ennþá verk að vinna.

Norðurlöndin eru þekkt fyrir tiltölulega hátt hlutfall kvenkyns fulltrúa á þjóðþingum og í ríkisstjórnum og er það árangur af starfi sem í meira en 100 ár hefur miðað að því að auka völd og áhrif kvenna. Norðurlöndin raða sér í efstu sæti lista Alþjóðaefnahagsráðsins sem mælir árangur og stöðu 140 þjóða á sviði kynjajafnréttis og í síðustu viku bárust okkur þær fréttir að Ísland er nú, sjöunda árið í röð, í efsta sæti listans. Staða okkar er auðvitað staðfesting á þeim góða árangri sem náðst hefur á nýliðnum árum en við eigum samt ærin verkefni fyrir höndum áður en fullu kynjajafnrétti verður náð.

Norrænt jafnréttisstarf grundvallast á sameiginlegum hugmyndum okkar um að pólitísk ákvarðanaferli verði að endurspegla samfélagið eigi þau að efla lýðræði og virkni þess í samfélögunum.   Þrátt fyrir viðundandi árangur á sviði stjórnmálanna eigum við það sameiginlegt með öðrum Norðurlandaþjóðum að völdum og áhrifum er ennþá mjög misskipt á milli kynja og á það helst við um æðstu stöður á opinberum og almennum vinnumarkaði sem og á mismunandi sviðum efnahagslífsins. Fyrir fram mótaðar skoðanir, staðlaðar hugmyndir og viðmið samfélagsins um hlutverk kvenna og karla koma enn í veg fyrir að bæði kynin hafi sömu möguleika á að móta samfélög okkar og það er sameiginlegt verkefni okkar allra að breyta því.  Sá möguleiki er alltaf fyrir hendi að staðlaðar kynjamyndir – eða kynlegar myndir – eflist á opinberum vettvangi sem getur staðið í vegi fyrir jöfnum tækifærum kvenna og karla í lýðræðislegri umræðu. Undir opinberan vettvang falla ýmiss konar miðlar, svo sem dagblöð, auglýsingar, kvikmyndir, tölvuleikir og samfélagsmiðlar.

Fjölmiðlar gegna hér lykilhlutverki. Þeir eiga að endurspegla fjölbreytileika samfélagsins. Rannsóknir sem hér verða kynntar í dag sýna hins vegar að konur og karlar birtast ekki í jöfnum hlutföllum í fjölmiðlum og sú mynd sem dregin er upp af konum endurspelgar hvorki fjölda þeirra á vettvangi stjórnmála, í forystu atvinnulífsins né hið háa menntunarstig íslenskra kvenna. Kynjaskekkju gætir einnig meðal fréttamanna og fjölmiðlafólks og konur eru í minnihluta þeirra sem taka stefnumótandi ákvarðanir í fjölmiðlum þar sem þær eru enn í minnihluta stjórnenda og eigenda miðlanna.  Með öðrum orðum fjölmiðlar endurspegla ekki raunveruleikann. Kynjuð og stöðluð framsetning um konur og karla og hlutverk þeirra vinnur gegn markmiði okkar um aukið jafnrétti – það gera líka auglýsingar sem birta snyrtar og afbakaðar ljósmyndir af konum og körlum og bjóða stúlkum og drengjum upp á takmarkað úrval fyrirmynda.  Framsetning fjölmiðla hefur meðal annars áhrif á vaxandi klámvæðingu í öllum miðlum og við verðum að halda vöku okkar gagnvart því hvernig stöðluðum hlutverkum kynjanna er miðlað í samfélaginu.

Þau sem starfa á sviði jafnréttismála þekkja að jafnréttisbarátta og femínismi mæta andstöðu. Umræða um kerfisbundið og rótgróið misrétti milli kvenna og karla, stúlkna og drengja og hvernig okkar miðar við að uppræta misréttið byggist oft á fordómum og misskilningi. Opinber umræða, sem heldur á lofti og áréttar stöðugt staðlaðar kynjamyndir, vinnur gegn jafnréttismálum. 

Þessu getum við breytt með því að hampa fjölbreytileikanum, efla þekkingu á kerfisbundnu misrétti og ræða opinskátt um samfélagslegan ávinning af auknu jafnrétti.

Á ráðstefnunni um Borgaraleg réttindi kvenna sagði Gro Harlem Brundtland, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs,  að ein helsta ógnin við aukið jafnrétti kynjanna væri ríkjandi sjónarmið um að fullu jafnrétti væri náð og við gætum þar af leiðandi slakað á aðgerðum.  Við þurfum að vera meðvituð um það bil sem enn þarf að brúa og við þurfum að vera vakandi fyrir því hvernig við miðlum efni til unga fólksins.

Eins og ég sagði áðan hefur verið einstakt að fylgjast með þeim krafti sem einkennt hefur umræðu um jafnréttismál hér heima allt þetta ár.  Í þessu sambandi verð ég að nefna unga fólkið sérstaklega. Ungt fólk virðist í mörgum tilfellum verða áþreifanlega vart við ójafnrétti í sínu lífi og það hefur með undraverðum hætti náð að vekja athygli á misréttinu. Ungar konur hafa hvað eftir annað stigið fram og með margvíslegum aðferðum vakið athygli á því valdaójafnvægi sem þeim er gert að lifa við samkvæmt óskráðum reglum samfélagsins. Þær hafa mótmælt og krafist þess að birtingarmyndir kvenna og karla á opinberum vettvangi taki breytingum. Ungar stelpur úr Hagaskóla sigruðu Skrekk nú nýverið með því að benda á hvernig neiðkvæð orðræða beinist að þeim og áminntu okkur um leið enn og aftur um nauðsyn þess að hún verði kveðin niður. Við buðum þeim að sjálfsögðu að taka þátt á jafnréttisþingi og hér á eftir munu fulltrúar þeirra eiga samræður við alþingismenn um ungt fólk og jafnrétti. Stelpurnar úr Hagaskóla hafa bent á nauðsyn þess að drengir og karlar skynji mikilvægi jafnréttismála og taki aukinn þátt í öllu jafnréttisstarfi. Í nýrri framkvæmdaáætlun stjórnvalda í jafnréttismálum, sem lögð verður fyrir Alþingi á þessu löggjafarþingi, er lögð sérstök áhersla á aukna þátttöku drengja og karla og að jafnréttismálin taki í auknum mæli mið af breyttum hlutverkum karla á ýmsum sviðum samfélagsins.

Það er gríðarlega mikilvægt að hér á landi séu öflugir hópar sem vinna að breytingum og gefa ekkert eftir. En það dugar ekki til eitt og sér.  Nauðsynlegt er að halda áfram að rannsaka,  safna saman tölulegum upplýsingum og kortleggja  stöðu og þróun kynjajafnréttis því að slík vinna er nauðsynleg forsenda framþróunar í málaflokknum. Þekking er undirstaða þess að við getum skilgreint og framkvæmt þau nauðsynlegu verkefni og ýtt til hliðar þeim hindrunum sem verið hafa á leið okkar að réttlátara samfélagi. Þekking er forsenda þess að opinber jafnréttispólitík geti náð markmiðum sínum. Skýrsla ráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála er afrakstur slíkrar vinnu. Niðurstöður hennar eru um margt jákvæðar en enn stöndum við þó frammi fyrir miklum áskorunum. Við munum mæta þeim áskorunum og halda áfram að byggja upp samfélag jafnréttis og lýðræðis – samfélag þar sem konur og karlar njóta fulls jafnréttis og samfélag þar sem allir leggjast á eitt um að vinna gegn kynbundnu ofbeldi. 

Eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar þá er hér áhugaverð dagskrá framundan og ég vona svo sannarlega að þið eigið eftir að eiga góðar og lærdómsríkar samræður um jafnréttismálin.

Takk fyrir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum