Hoppa yfir valmynd
25. nóvember 2015 Forsætisráðuneytið

Ávarp ráðherra við upphaf Jafnréttisþings í dag

Eygló Harðardóttir ávarpar Jafnréttisþing 2015
Eygló Harðardóttir ávarpar Jafnréttisþing 2015

Opinber umræða sem heldur á lofti stöðluðum kynjamyndum vinnur gegn jafnrétti. Þessu getum við breytt með því að hampa fjölbreytileikanum, efla þekkingu á kerfisbundnu misrétti og ræða um samfélagslegan ávinning af auknu jafnrétti, sagði Eygló Harðardóttir, ráðherra jafnréttismála við upphaf Jafnréttisþings sem nú stendur yfir.

Á þinginu var kynnt skýrsla félags- og húsnæðismálaráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála árin 2013–2015, líkt og lögbundið er. Skýrslan spannar stöðu jafnréttismála á öllum helstu sviðum samfélagsins, en meginefni þingsins í dag fjallar um ólíkar birtingarmyndir kynjanna í opinberri umræðu og umfjöllun. Eygló lagði í ræðu sinni áherslu á þörfina fyrir breytingar og hvernig megi vinna að breytingum: „Hlutverk þingsins er að efna til samræðna milli stjórnvalda og þjóðar um kynjajafnrétti og hér á öllum að gefast tækifæri til að hafa áhrif á stefnu stjórnvalda á sviði jafnréttismála“ sagði ráðherra meðal annars í ræðu sinni.

Eygló ræddi einnig um hatursumræðu og hvernig þessi tegund ofbeldis birtist í samfélaginu daglega á opinberum vettvangi: „Ofbeldið birtist okkur sem hatursorðræða á netinu sem beinist gegn einstaklingum af báðum kynjum og þegar hún beinist að konum er hún oftar en ekki kynjuð, en konur verða mun frekar fyrir hatursfullum áróðri á samfélagsmiðlum á grundvelli kynferðis. Það sem einkennir hatursorðræðu er að gerandi sendir þolanda meiðandi skilaboð með vísan í stöðu beggja í samfélaginu.“

Árið 2015 er fagnað 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna og þeim tímamótum eru gerð skil í skýrslu ráðherra til jafnréttisþings. Ráðherra gerði lýðræðið einnig að umtalsefni í ræðu sinni og sagði: „Lýðræði snýst ekki eingöngu um kosningarétt og þau sjálfsögðu mannréttindi að geta haft áhrif á samfélagsþróun – lýðræði snýst einnig um að við eigum öll að eiga jafna möguleika á þátttöku.“ Í þessu ljósi sagði ráðherra að ef niðurlægjandi og meiðandi orðræða fengi að grassera í umræðunni gæti slíkt orðfæri orðið sjálfsagt og farið að vinna gegn markmiðum um jöfn tækifæri allra tl þátttöku í lýðræðislegri umræðu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira