Hoppa yfir valmynd
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Fjallað um lýðræði á vefnum og upplýsingatækni allsstaðar á UT-degi

Margir hlýddu á fyrirlestra UT-dagsins í dag. - mynd

Dagur upplýsingatækninnar var í dag og var þar boðað til málstofu um upplýsingatækni og lýðræðið og ráðstefnu undir heitinu upplýsingatæknin alls staðar. Greint var frá niðurstöðum úttektarinnar hvað er spunnið í opinbera vefi 2015 og í lok dagsins voru veittar viðurkenningar fyrir besta ríkisvefinn og besta sveitarfélagsvefinn. Besti ríkisvefurinn er island.is og besti vefur sveitarfélags er akranes.is.

Á fyrri hluta dagskrárinnar var meðal annars fjallað um samráðsgáttir, aðgengi að opinberum gögnum, um hvernig borgarinn verður virkur þátttakandi í mótun samfélagsins, reynslu af rafrænum atkvæðagreiðslum; rætt var um efnið að vefa lýðræðið hjá Reykjavíkurborg, um rödd stofnunar á samfélagsmiðlum, opin gögn og opnun fjármálagagna.

Á síðari hlutanum var fjallað um ljósleiðaravæðingu, frumleika og stjórnun, hvort íslenskan lifi af 21. öldina og um stefnu og aðgerðir í öryggismálum. Einnig um öryggi opinberra vefja og fyrstu öryggisúttekt sem gerð var á vefjum ríkis og sveitarfélaga nú í haust og síðan var greint frá áðurnefndri úttekt á opinberum vefjum.

Kynningar fyrirlesara verða aðgengilegar á vefnum sky.is.

Niðurstöður úttektar má sjá á ut-vefnum .

Rafrænar þinglýsingar í undirbúningi

Ólöf Nordal innanríkisráðherra flutti setningarávarp á ráðstefnunni og gerði að umtalsefni nokkur verkefni á sviði rafrænnar þjónustu sem unnið væri að á vegum innanríkisráðuneytisins. Ráðherra nefndi meðal annars rafrænar þinglýsingar en nú er í undirbúningi að gera mögulegt að þinglýsa ákveðnum skjölum rafrænt og væru í undirbúningi lagabreytingar í því skyni. Stefnt er að því að leggja málið fyrir Alþingi eftir áramót. Þá sagði hún leyfisveitingagátt í undirbúningi sem væri unnið að hjá Þjóðskrá Íslands. Hugmyndin með henni væri sú að einstaklingar sem fyrirtæki gætu sótt um margs konar leyfi á einni gátt sem myndi spara bæði fé og fyrirhöfn. Gert væri ráð fyrir að unnt yrði að greiða fyrir leyfin á sama stað þar sem það á við. Á UT-degi í fyrra var sagt frá verkefni sem snýst um að kanna hvort fýsilegt sé að Þjóðskrá Íslands taki að sér hlutverk upplýsingatæknimiðstöðvar sem þjónaði ríkisstofnunum og jafnvel sveitarfélögum ef áhugi er fyrir því. Þessi vinna hefði tekið lengri tíma en áætlað var en gert væri ráð fyrir að niðurstöður liggi fyrir á næstu vikum.

Ólöf Nordal innanríkisráðherra setti ráðstefnu UT-dagsins í dag.

Í lokin sagði ráðherra öryggismál fá talsvert rými á dagskránni og væru þau nauðsynlegt umfjöllunarefni þegar tölvu- og netheimar væru annars vegar. Í forgangi væri að verja mannslíf en einnig að verja gögn og kerfi fyrir árásum. Ráðherra kynnti á liðnu voru í ríkisstjórn fyrstu stefnu um net- og upplýsingaöryggi og sagði ráðherra þörf á að efla netöryggissveitina enda væru glæpir að aukast í netheimum. Hún sagði ýmis álitamál hafa verið í frumvarpsdrögunum, meðal annars um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki, orkufyrirtæki og fleiri rekstraraðila mikilvægra innviða sem netöryggissveitinni er ætlað að þjóna. Ráðuneytið hafi fengið talsverð viðbrögð sem nú væri unnið úr.

island.is og akranes.is bestu vefirnir

Í lok UT-dagsins voru afhentar viðurkenningar fyrir besta ríkis vefinn og besta sveitarfélagsvefinn. Fimm vefir voru tilnefndir í hvorum flokki. Í flokki ríkisvefja hlaut vefurinn island.is viðurkenninguna og tók Margrét Hauksdóttir, forstjóri Þjóðskrár Íslands, á móti viðurkenningunni ásamt nokkrum samstarfsmönnum. Í flokki sveitarfélagavefja var vefur Akraneskaupstaðar hlutskarpastur og tók Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri við viðurkenningunni fyrir hönd bæjarins.

Fulltrúar Þjóðskrár Íslands tóku á móti viðurkeningu fyrir vefinn island.is.

Regína Ástvaldsdóttir tók við viðurkenningunni fyrir hönd Akraneskaupstaðar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira