Hoppa yfir valmynd
26. nóvember 2015 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Rannís fagnar 75 áraafmæli

Sesselja Ómarsdóttir og Egill Skúlason hlutu Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs 2015
IMG_9090

Nú stendur yfir afmælisþing Rannís og við það tækifæri voru Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs 2015 veitt til tveggja framúrskarandi vísindamanna, þeirra Sesselju Ómarsdóttur og Egils Skúlasonar.

Um þessar mundir eru 75 ár frá því að Rannsóknaráð ríkisins var sett á stofn með lögum árið 1940. Í sögulegu samhengi eru Rannís og Vísinda- og tækniráð beinir arftakar þess hlutverks sem ráðið var stofnað til í upphafi. Frá stofnun hefur Rannís gegnt mikilvægu hlutverki í vísinda- og nýsköpunarkerfinu hér á landi. Í dag er stofnunin miðstöð stuðnings við rannsóknir, nýsköpun, menntun og þróun mannauðs auk menningar og skapandi greina.

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra ávarpaði afmælissamkomu Rannís og gat þess meðal annars að Rannís gegnir veigamiklu hlutverki við þjónustu um alþjóðleg samskipti og samstarf á sviði rannsókna, nýsköpunar, menntunar og menningar. Þá hafi Rannís á síðustu árum verið ötult við að efna til umræðna um vísindi og nýsköpun og skipuleggja viðburði og verðlaunaafhendingar til að gera rannsóknir, þróun og menntun sýnilegri almenningi og er afhending Hvatningarverðlauna Vísinda- og tækniráðs til marks um það.

IMG_9096 Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra afhenti Sesselju Ómarsdóttur og Agli Skúlasyni Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs.

Sjá nánar um verðlaunahafana

Aðdragandinn að stofnun Rannsóknarráðs ríkisins

Aðdragandinn að stofnun Rannsóknarráðs ríkisins var sá að árið 1939 skipaði atvinnu- og samgöngumálaráðherra, Skúli Guðmundsson, nefnd um yfirstjórn hagnýtra náttúrufræðirannsókna á Íslandi. Var það eitt af hlutverkum nefndarinnar að „sýna á hvern hátt þjóðin gæti sem best fullnægt þörfum sínum með framleiðslu nauðsynlegustu vörutegunda ef siglingar að eða frá landinu stöðvuðust að miklu eða öllu leyti af völdum ófriðar“ eins og segir orðrétt í erindi nefndarinnar. Ennfremur fékk nefndin það hlutverk að hafa eftirlit með erlendum vísindamönnum, en nokkur uggur var í mönnum vegna aukins áhuga þýskra vísindamanna á náttúrufræðirannsóknum hér á landi og óttuðust margir að rannsóknirnar þjónuðu meira en bara vísindalegum tilgangi.

Árið 1940 voru svo sett lög um náttúrurannsóknir þar sem nefnd um yfirstjórn hagnýtra náttúrufræðirannsókna var formfest og fékk hún þá nafnið Rannsóknaráð ríkisins. Skyldi ráðið skipað þremur mönnum, tilnefndum af ríkisstjórnarflokkunum, og var hlutverk þess var að vinna að eflingu rannsókna á náttúru landsins og að veita ríkisstjórninni ráðgjöf um rannsóknarstarfsemi, auk þess að hafa eftirlit með útlendum rannsóknarhópum eins og áður segir. Í sömu lögum var formfest rannsóknarstofnun í þágu atvinnuvegana – svokölluð Atvinnudeild – sem stuðla skyldi að þekkingaröflun á helstu auðlindum landisins – fiskimiðunum, landbúnaði og orku- og jarðefnum. Var það hlutverk Rannsóknaráðs að gera fjárhags- og starfsáætlanir fyrir Atvinnudeildina og ákveða rannsóknarverkefni hennar í samráði við deildarstjóra.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira