Hoppa yfir valmynd
26. nóvember 2015 Heilbrigðisráðuneytið

Starfshópi falið að móta stefnu um fjarheilbrigðisþjónustu

Vetrarríki
Vetrarríki

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur skipað starfshóp sem móta á stefnu og aðgerðaáætlun til að efla fjarheilbrigðisþjónustu. Markmiðið er að auka getuna til þess að bjóða landsmönnum, óháð búsetu, fjölbreytta, skilvirka og örugga heilbrigðisþjónustu.

Starfshópurinn er skipaður í samræmi við ályktun þess efnis sem samþykkt var á Alþingi 1. júlí á þessu ári.

Eins og fram kemur í greinargerð með þingsályktunartillögunni felur fjarheilbrigðisþjónusta í sér ýmsa þjónustu sem veitt er með fjarskiptum og rafrænum hætti. Fjarheilbrigðisþjónusta hefur verið þróuð víða um heim á síðustu áratugum og hafa rannsóknir sýnt að ávinningurinn snýr bæði að lífsgæðum og heilsu þeirra sem njóta þjónustunnar, þekkingu og færni heilbrigðisstarfsfólks og lækkun kostnaðar við heilbrigðisþjónustu. Í greinargerðinni segir einnig að ætla megi að ávinningur af öflugri fjarheilbrigðisþjónustu hér á landi verði umtalsverður. Þannig megi mæta betur þörfum fólks, bæta aðgengi landsmanna að öruggri heilbrigðisþjónustu og bregðast við manneklu, sérstaklega á stöðum þar sem starfsmannaskipti eru tíð: „Fjarheilbrigðisþjónusta dregur úr kostnaði vegna ferða notenda sem og heilbrigðisstarfsfólks. Þá styrkir hún nákvæma skráningu heilbrigðisupplýsinga. Fjarheilbrigðisþjónusta er mjög ákjósanlegur kostur til að efla heilbrigðisþjónustu hér á landi og er einnig árangursrík leið til að efla lýðheilsu“ segir m.a. í greinargerðinni.

Formaður starfshópsins er Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á akureyri. Aðrir nefndarmenn eru Guðbjartur Ólafsson, heimilislæknir, tilnefndur af Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Auðbjörg Brynja Bjarnadóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir, tilnefnd af Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Sigurður E. Sigurðsson, framkvæmdastjóri lækninga á Sjúkrahúsinu á Akureyri, tilnefndur af Embætti landlæknis og Helga Bragadóttir, dósent við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, tilnefnd af Embætti landlæknis.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira