Hoppa yfir valmynd
26. nóvember 2015 Matvælaráðuneytið

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra ræddi íslenska ferðaþjónustu á síðdegisfundi í Osló

Um 70 gestir sóttu fundinn sem haldinn var í húsnæði kauphallarinnar í Osló undir yfirskriftinni „Omstilling og velstand í Norge og Island“ (ísl. Umbreytingar og hagsæld í Noregi og á Íslandi) og var skipulagður af Norsk-íslenska viðskiptaráðinu í samvinnu við Icelandair, Norsku kauphöllina, Beringer finance og sendiráð Íslands í Osló.

Í erindinu ræddi ráðherra vöxtinn í íslenskri ferðaþjónustu á undanförnum árum og efnahagsleg og samfélagsleg áhrif þess um allt land. Ráðherra fjallaði um leiðir Íslendinga til markaðssetningar á Íslandi sem áfangastað fyrir ferðamenn og kynnti þá stefnumótunarvinnu sem íslensk stjórnvöld, í samvinnu við Samtök ferðaþjónustunnar, unnu nýverið að og kynntu í Vegvísi fyrir íslenska ferðaþjónustu í Hörpu í byrjun október. Þá fjallaði ráðherra að auki m.a. um jákvæð áhrif kvikmynda- og tónlistargeiranna á íslenska ferðaþjónustu.

Ásamt ráðherra fluttu erindi á fundinum Arne Hjeltnes, ráðgjafi, bókaútgefandi og sjónvarpsmaður, Helgi Már Björgvinsson, framkvæmdastjóri sölu og markaðssviðs Icelandair og Bente A. Landsnes, forstjóri Norsku kauphallarinnar. Fyrr í dag heimsótti ráðherra frumkvöðlafyrirtækið United Influencers sem heldur úti „markaðs- bloggveitunni“unitedbloggers.no og tengir þar saman fyrirtæki og neytendur gegnum blogg ýmis konar. Fyrirtækinu er stýrt af frumkvöðlinum Laugu Óskarsdóttur, sem nýverið var valin í hóp tíu framúrskarandi frumkvöðla í Noregi á sviði upplýsingatækni af viðskiptablaðinu E24. Ferð ráðherra til Noregs lýkur á morgun.

Á myndinni að neðan eru auk ráðherra þau Steinunn K Þórðardóttir, Kristín S Hjálmtýsdóttir og Geir Helljesen fréttaritari NRK fyrir Ísland.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum