Hoppa yfir valmynd
30. nóvember 2015 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra ávarpar leiðtogafund loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra ávarpar fund þjóðarleiðtoga á loftslagsráðstefnu SÞ í París - mynd

Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna (COP21) hófst í dag með fundi þjóðarleiðtoga í París. Rauður þráður í ávörpum þjóðarleiðtoga var vilji til að ná metnaðarfullu framtíðarsamkomulagi í loftslagsmálum á Parísarfundinum, sem tæki gildi árið 2020 þegar öðru tímabili Kýótó bókunarinnar lýkur.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra ávarpaði fundinn og hóf ávarp sitt á að votta frönsku þjóðinni samúð vegna hryðjuverkaárásanna í París fyrr í mánuðinum. Forsætisráðherra sagðist vonast til að Parísarfundurinn næði saman um nýjan loftslagssamning og að Ísland styddi metnaðarfullt samkomulag. Þá sagði forsætisráðherra áhrif loftslagsbreytinga afar sýnileg á Íslandi – jöklarnir væru að hörfa og ef ekkert verði gert til að draga úr losun, gætu þeir horfið að miklu leyti á næstu 100 árum. Forsætisráðherra kom inn á hækkun hitastigs og súrnun hafsins og slæm áhrif þess á vistkerfi sjávar. Hann kvað Ísland hafa náð miklum árangri við að draga úr losun en meira þyrfti til. Stjórnvöld hafi tilkynnt um verkefni er miði að því að draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi; í samgöngum, sjávarútvegi, landbúnaði og landnotkun – í samvinnu við viðkomandi geira. Þá lagði forsætisráðherra áherslu á nýtingu jarðvarma þar sem Ísland hefði verið í forystu til margra ára.

Forsætisráðherra segir „greinilegt að vilji sé fyrir hendi hjá þjóðarleiðtogum til að ná samkomulagi um nýjan loftslagssamning, samningamenn eigi hins vegar þungt verk fyrir höndum næstu dagana við að ná samkomulagi“.

Ræðu forsætisráðherra á leiðtogafundi loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (á ensku).

Loftslagsráðstefnan stendur frá 30. nóvember til 11. desember.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira