Hoppa yfir valmynd
1. desember 2015 Félagsmálaráðuneytið

Sérlegir sendiherrar um réttindi fatlaðs fólks starfa áfram

Á námskeiði
Á námskeiði

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur ákveðið að framlengja samning við Fjölmennt um störf sendiherra samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þriggja milljóna króna framlag til verkefnisins gerir sendiherrunum kleift að starfa til loka næsta árs.

Ísland undirritaði Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2007. Markmið Sameinuðu þjóðanna með gerð samningsins var að árétta mikilvægi helstu grundvallarmannréttinda í lífi fatlaðs fólks og minna á að fatlað fólk á sama rétt til mannréttinda og allir aðrir.

Mikilvægt er að fatlaðir einstaklingar þekki sjálfir vel til samningsins og geti tileinkað sér innihald hans til að nýta sér ákvæði samningsins í baráttu fyrir betra lífi og auknum tækifærum. Í þessu ljósi var stofnað til Sendiherraverkefnisins vorið 2011, en það felur í sér kynningu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks fyrir fólki með þroskahömlun og öðrum áhugasömum um aðferðafræði jafningjafræðslu.

Sendiherrarnir eru sjö manna hópur fólks með þroskahömlun sem fengið hefur fræðslu og aðstoð til að tileinka sér ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna og annast fræðslu til annarra um efni og inntak mikilvægra ákvæða hans. Þeir hafa farið um allt land, haldið kynningarfundi á vernduðum vinnustöðum, í framhaldsskólum, mannréttindaráði Reykjavíkur, í velferðarráðuneytinu og víðar þar sem óskað hefur verið eftir kynningu þeirra á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira