Hoppa yfir valmynd
2. desember 2015 Utanríkisráðuneytið

Gunnar Bragi sótti utanríkisráðherrafund Atlantshafsbandalagsins

Gunnar Bragi við hringborð NATO
Frá utanríkisráðherrafundi NATO í Brussel

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sótti utanríkisráðherrafund Atlantshafsbandalagsins sem lauk í Brussel í dag. Á fundinum var m.a. rætt um öryggisáskoranir sem bandalagið stendur frammi fyrir úr austri og suðri, málefni Afganistan, samstarfið við Rússland, stækkun bandalagsins og þróun mála í Úkraínu. Á fundi með utanríkisráðherra Svartfjallalands var tilkynnt um þá ákvörðun að bjóða landinu að hefja formlegar viðræður við bandalagið um aðild. Síðast gengu Albanía og Króatía í bandalagið árið 2009 og verður Svartfjallaland 29. aðildarríki bandalagsins þegar þar að kemur.

“Það er ljóst að hryðjuverkin og breytt öryggisumhverfi í Evrópu kalla á breiða samstöðu og þéttara samstarf innan bandalagsins, við önnur ríki og alþjóðastofnanir. Þó nýleg hryðjuverk og staðan í Sýrlandi hafi sett svip sinn á fundinn var ánægjulegt að fá tækifæri til að bjóða Svartfjallalandi til viðræðna ekki síst í ljósi þess að Ísland varð fyrst ríkja til að viðurkenna sjálfstæði landsins“, segir Gunnar Bragi. 

Þátttökuríkin í aðgerðum til stuðnings Afganistan funduðu ásamt fulltrúum afganskra stjórnvalda og Sameinuðu þjóðanna um áframhaldandi stuðning alþjóðasamfélagsins við landið. Ákveðið var að framlengja yfirstandandi þjálfunarverkefni út árið 2016 og tilkynnti utanríkisráðherra um áframhaldandi þátttöku borgaralegra sérfræðinga.
Átökin í Sýrlandi og uppgangur öfgamanna í Miðausturlöndum og Norður-Afríku, ekki síst Daesh, voru formlega á dagskrá fundarins auk umræðu um hryðjuverkahættuna. Ráðherrarnir voru sammála um að aðstoða samstarfsríki bandalagsins á svæðinu í umbótum í öryggis- og varnarmálum. Bandalagið mun einnig halda áfram að styðja Tyrkland vegna hættunnar sem stafar átökunum í Sýrlandi en jafnframt var lögð áhersla á aðgerðir sem dregið geta úr spennu.  
Samskipti Atlantshafsbandalagsins og Rússlands hafa verið í algjöru lágmarki eftir innlimun Rússa á Krímskaga og ræddu ráðherrarnir hvernig þeim skyldi hagað til framtíðar. 

Ástandið í Úkraínu og framkvæmd Minsk-samkomulagsins voru rædd á fundi NATO-Úkraínunefndarinnar. Þar kom fram eindreginn stuðningur bandalagsins við Úkraínu og hvöttu ríkin stjórnvöld í landinu til áframhaldandi umbótastarfs og brýndu deiluaðila til að framfylgja Minsk-samkomulaginu. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum