Hoppa yfir valmynd
2. desember 2015 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Hátíðbrautskráðra doktora við Háskóla Íslands

Á sjöunda tug doktora tók við gullmerki Háskóla Íslands

Á fullveldisdeginum 1. desember var haldin hátíð brautskráðra doktora við Háskóla Íslands. Þá tóku 64 doktorar við gullmerki skólans en þeir eiga það sameiginlegt að hafa brautskráðst frá skólanum á tímabilinu 1. desember 2014 til 1. desember 2015. Í hópnum eru 29 karlar og 35 konur og um það bil þriðjungur er með erlent ríkisfang, frá 14 þjóðlöndum í Evrópu, Norður - Ameríku, Asíu og Afríku. Doktorarnir koma af öllum fimm fræðasviðum háskólans. Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra ávarpaði samkomuna ásamt Ólafi Ragnari Grímssyni forseta Íslands og Óskari Sindra Gíslasyni, doktor í líffræði.

Í fréttatilkynningu Háskóla Íslands segir meðal annars: „Hátíð brautskráðra doktora var fyrst haldin á aldarafmæli skólans árið 2011. Henni er ætlað að undirstrika þá áherslu sem skólinn hefur lagt á rannsóknatengt nám á síðustu árum. Doktorsnám við skólann hefur eflst mjög á undanförnum áratug, ekki síst með skýrri stefnumörkun skólans, fyrst fyrir árin 2006-2011 og svo aftur fyrir árin 2011-2016. Á seinna tímabilinu var markið sett á 60–70 brautskráningar úr doktorsnámi á ári hverju. Annað árið í röð nær skólinn þessu markmiði en þess má geta til samanburðar að 32 doktorar brautskráðust árið 2009. Við þetta má bæta að á yfirstandandi ári brautskráðist 500. doktorsneminn frá upphafi frá Háskóla Íslands.

Doktorsnemar leggja mikið af mörkum til skólans í samstarfi við leiðbeinendur sína og sést það bæði í góðum árangri í birtingum vísindagreina í alþjóðlegum tímaritum og stöðu Háskóla Íslands á matslista Times Higher Education World Rankings, en skólinn hefur verið á lista tímaritsins yfir 300 bestu háskóla heims undanfarin fimm ár“.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum