Hoppa yfir valmynd
2. desember 2015 Dómsmálaráðuneytið

Skipar samráðshóp til að greina umbætur í meðferð nauðgunarmála

Innanríkisráðherra hefur ákveðið að setja af stað vinnu við greiningu á því sem betur má fara við meðferð nauðgunarmála. Greiningin taki til meðferðar nauðgunarmála í réttarvörslukerfinu.

Gert er ráð fyrir að samráðshópurinn verði skipaður þeim sem koma að umræddum málum, þ.e. fulltrúum ríkissaksóknara, héraðssaksóknara, Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dómstólaráðs, Lögmannafélags Íslands og Landspítala háskólasjúkrahúss vegna neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis. Þá verður þingflokkum gefinn kostur á að tilnefna tengiliði vegna verkefnisins. Þess má geta að allir þingflokkar hafa sýnt málinu áhuga.

Hlutverk samráðshópsins er að fara ítarlega yfir meðferð nauðgunarmála í réttarvörslukerfinu og setja fram tillögur til umbóta og taka afstöðu til tillagna sem þegar hafa verið settar fram. Fyrir liggja ýmis gögn um málið, meðal annars skýrsla Hildar Fjólu Antonsdóttur, Viðhorf fagaðila til meðferðar nauðgunarmála innan réttarvörslukerfisins og tillögur að úrbótum, sem unnin var á árinu 2014 í samvinnu við innanríkisráðuneytið.

Vonast er til að niðurstöður og úrbótatillögur verði kannaðar gaumgæfilega og eftir atvikum þróaðar áfram og nýttar í því skyni að tryggja réttaröryggi borgaranna, efla vitundarvakningu og samstarf stjórnvalda.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira