Hoppa yfir valmynd
4. desember 2015 Félagsmálaráðuneytið

Ný framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks í mótun

Eygló Harðardóttir
Eygló Harðardóttir

Starfshópur sem vinnur að gerð tillögu til þingsályktunar um nýja framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks er tekinn til starfa. Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra sat fund sem starfshópurinn efndi til í vikunni með ýmsum hagsmunaaðilum sem láta sig málefni fatlaðs fólks varða.

Alþingi samþykkti sumarið 2012 framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks til tveggja ára þar sem sett var fram stefna í málaflokknum og aðgerðaáætlun, m.a. í tengslum við lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, aðgengismál, biðlista eftir þjónustu, atvinnumál fatlaðs fólks og fleiri atriði. Við lok gildistíma áætlunarinnar ákvað ráðherra að framlengja hana og hefja jafnframt vinnu við gerð nýrrar áætlunar sem leysa mun hina af hólmi.

Við mótun framkvæmdaáætlunarinnar verður fyrirliggjandi stefna og framkvæmdaáætlun lögð til grundvallar. Sem fyrr verður byggt á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og straumum og stefnum annars staðar á Norðurlöndunum og víðar. Leitast verður við að byggja vinnuna á gagnreyndri þekkingu.

Stefnan á að fela í sér skýra framtíðarsýn, markmið og skilgreindar aðgerðir, ásamt tíma- og kostnaðaráætlun og skilgreindum mælikvörðum til að meta árangur aðgerða. Gert er ráð fyrir að framkvæmdaáætlunin taki til fimm ára.

Starfshópurinn sem vinnur að gerð framkvæmdaáætluninni er skipaður fulltrúum Landssamtakanna Þroskahjálpar, Sambands íslenskra sveitarfélaga, velferðarráðuneytisins, velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Öryrkjabandalags Íslands.

Áhersla er lögð á víðtækt samráð við hagsmunaaðila og sérfræðinga á sviðinu. Til samráðsfundarins í gær voru boðaðir fulltrúar Átaks, félags fólks með þroskahömlun, Blindrafélagsins, Félagi heyrnarlausra, Fjölmenntar, Foreldrafélags Klettaskóla, Geðhjálpar, Geysis, Hlutverks - Samtaka um vinnu og verkþjálfun, Hugarafls, Sjálfsbjargar, Sjónarhóls, Stígamóta og Umsjónarfélags einhverfra. Fulltrúar Hagsmunaaðila og sérfræðingar í málefnum fatlaðs fólks verða kallaðir til fundar við starfshópinn eftir því sem þörf krefur og vinnu hans vindur fram.

Á vef velferðarráðuneytisins er svæði þar sem aðgengilegar eru upplýsingar um vinnu starfshópsins.

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira