Hoppa yfir valmynd
8. desember 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Greitt fyrir komu erlendra sérfræðinga í tækni- og hugverkageira

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra - mynd

Fjármála- og efnahagsráðherra stefnir að því að leggja fram í vetur frumvörp sem greiða fyrir því að laða megi að erlenda sérfræðinga til starfa í tækni- og rannsóknarfyrirtækjum hér á landi. Þetta kom fram í máli Bjarna Benediktssonar á tækni- og hugverkaþingi sl. föstudag.

Ráðherra ræddi á þinginu stöðu tækni- og hugverkafyrirtækja og þá umgjörð sem stjórnvöld geta skapað þessum mikilvægu og vaxandi atvinnugrein.

Bjarni sagði að einn liður í því að skapa gott umhverfi fyrir þennan geira væri að geta laðað til landsins erlenda sérfræðinga. Í því skyni þyrfti að huga að breytingum á ýmsum sviðum t.d. hvað snerti regluverk vegna innflytjenda og í menntamálum, svo erlendir sérfræðingar sæju hag í að koma hingað með fjölskyldur sínar. Í fjármála- og efnahagsráðuneytinu væri málið skoðað út frá skattalegum forsendum. „Ég stefni að því að í vetur að leggja fram frumvörp sem tengjast okkar málefnasviðum til þess að bæta skattalegar forsendur fyrirtækja að þessu leytinu til,“ sagði ráðherra.

Hann vék einnig að skattabreytingum á kauprétti og skuldabéfum og útgáfu umbreytanlegra skuldabréfa sem vex sífellt í vinsældum.

„Þá þurfa fjárfestarnir í raun aðeins að ákveða hvort þeim lítist vel á hugmyndina og mannskapinn á bak við hana og hvaða vaxtakjör og umbreytitímasetning eigi við.

Þetta er lítið notað á Íslandi og ástæðan er líklega skattalegs eðlis, enda eru umbreytanleg skuldabréf skattlögð við nýtingu breytiréttar. Ef skuldabréfið ber 20% afslátt við umbreytingu þannig að milljón króna lán breytist í 1200 þúsund krónu hlutafé þá eru 200 þúsund krónurnar skattlagðar við umbreytingu sem hagnaður. Þetta getur leitt til þess að fjárfestar þurfi að taka lán til að geta nýtt breytiréttinn svo þeir geti mætt skattbyrði.

Þetta þarf að lagfæra og mun ég beita mér fyrir því. Sama gildir í raun um kauprétti," sagði Bjarni.

Ennfremur ræddi ráðherra tekjuskatt fyrirtækja í tengslum við tækni- og hugverkageirann.

„Ísland á að skoða til þrautar hvernig hægt er að mæta samkeppni af þessum toga og fjölga störfum í þessum geira. Það kæmi til álita að vera með sérstakt skattþrep þar, okkar leið gæti verið 5% og 15%.“

Með þessu væri brugðist við samkeppni annars staðar frá, t.d. frá Írlandi sem nýlega lækkaði tekjuskatt tækniþróunar- og nýsköpunarfyrirtækja úr 12,5% í 6,25%.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira