Hoppa yfir valmynd
8. desember 2015 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Ráðherrar funduðu um breyttlandslag ríkisfjölmiðla

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra átti í dag fund með Bertel Haarder, menningar- og kirkjumálaráðherra Danmerkur. Á fundi ráðherranna voru rædd málefni ríkisfjölmiðla í löndunum tveimur.

Á fundinum kom meðal annars fram að starfsumhverfi ríkisfjölmiðla hefur á undanförnum árum breyst mikið og fyrirsjáanlegt er að á næstu misserum og árum muni sú þróun halda áfram á auknum hraða. Nú þegar hafa þessar breytingar getið af sér breytt neyslumynstur almennings, einkum hvað varðar sjónvarpsáhorf. Vaxandi krafa er um sveigjanlegt aðgengi að öllu sjónvarpsefni, framboð á efni hefur aukist gríðarlega m.a. með tilkomu nýrra fyrirtækja á sjónvarpsmarkaði og alþjóðlegar efnisveitur eru óðum að hasla sér völl. Í ljósi þessarar þróunar hefur mikilvægi innlendrar efnisframleiðslu vaxið mjög.

Ráðherrarnir ræddu m.a. um uppbyggingu þjónustusamninga við ríkisfjölmiðla, einkum um þann þátt er snýr að skyldum ríkisfjölmiðlanna til að nota hluta þeirra fjármuna sem þeim hefur verið úthlutað til kaupa á efni af innlendum framleiðendum.

Jafnframt ræddu ráðherrarnir mikilvægi þess að auka framleiðslu á vönduðu barna- og unglingaefni ásamt því að tryggja þurfi með sem bestum hætti grundvöll lýðræðislegrar umfjöllunar.

Fundurinn var haldinn í Menningarmálaráðuneytinu í Kaupmannahöfn.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira