Hoppa yfir valmynd
9. desember 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Menntun og valdefling kvenna í Afganistan

Opið málþing um menntun og valdeflingu kvenna og stúlkna í Afganistan verður haldið á morgun, fimmtudaginn 10. desember, á Radison Hotel Saga í Reykjavík. Málþingið er haldið í tengslum við styrkveitingu íslenskra stjórnvalda til UNICEF í Afganistan til að stuðla að menntun stúlkna í landinu.

UNICEF og UN Women á Íslandi standa að málþinginu sem haldið er í samstarfi við forsætis-, utanríkis- og velferðarráðuneytið. Ráðuneytin þrjú standa saman að verkefni sem hlaut 9 m.kr. styrk úr Framkvæmdasjóði jafnréttismála á síðastliðnu ári og hefur það annars vegar að markmiði að styðja við menntun og valdeflingu stúlkna og kvenna í Afganistan og hins vegar að kynna stöðu stúlkna í landinu og mikilvægi menntunar fyrir valdeflingu þeirra.

10. desember er alþjóðlegur mannréttindadagur Sameinuðu þjóðanna og markar jafnframt lok sextán daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi. Á málþinginu verður rætt um þær hindranir sem afganskar stúlkur standa frammi fyrir á vegi sínum til menntunar og persónulega reynslu tveggja afganskra sérfræðinga af stöðu kvenna í Afganistan.

Fyrirlesarar á málþinginu verða þær Razia Stanikzai, sem starfar hjá afganska menntamálaráðuneytinu og hefur unnið fyrir UNICEF og frjáls félagasamtök í Afganistan, og Fatima Hossaini, fyrrum nemandi í Jafnréttiskóla SÞ. Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra flytur ávarp og fundarstjóri er Lilja Hjartardóttir, stjórnmálafræðingur, sem einnig gerir grein fyrir sögulegum bakgrunni átakanna í Afganistan.

Málþingið fer fram á Radison Hotel Saga. Húsið opnar kl 8.15. Dagskrá hefst kl 8.30 og lýkur 10.15. Morgunverður verður í boði og ókeypis inn. Tekið verður á móti frjálsum framlögum við dyrnar. Framlögin munu renna til verkefna UNICEF og UN Women.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum