Hoppa yfir valmynd
10. desember 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Skipaður fjársýslustjóri frá 1. janúar 2016

Ingþór Karl Eiríksson. - mynd

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur skipað Ingþór Karl Eiríksson í embætti fjársýslustjóra til fimm ára frá 1. janúar 2016.

Ingþór Karl lauk cand. oecon prófi af fjármálasviði viðskiptadeildar Háskóla Íslands árið 1998 og MSc gráðu í fjármálum fyrirtækja frá sama skóla árið 2012. Síðastliðin sjö ár hefur hann starfað sem sérfræðingur á skrifstofu stjórnunar og umbóta í fjármála- og efnahagsráðuneyti. Þar hefur hann verið tengiliður ráðuneytisins við Fjársýslu ríkisins og hefur borið ábyrgð á helstu málaflokkum stofnunarinnar fyrir hönd ráðuneytisins. Áður starfaði Ingþór Karl sem fjármálastjóri SMI ehf., sem sérfræðingur í fjárhagsdeild hjá Íslandsbanka, sem sérfræðingur í fjárhagsdeild og deildarstjóri fjárreiðudeildar hjá Eimskipafélagi Íslands ehf. og deildarstjóri fjárhagsdeildar Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur.

Embætti fjársýslustjóra var auglýst í október síðastliðnum og rann umsóknarfrestur út 2. nóvember. Tíu umsóknir bárust en tveir umsækjendur drógu umsókn sína til baka. Skipuð var þriggja manna ráðgefandi hæfnisnefnd sem lagði sjálfstætt mat á umsóknir og umsækjendur. Ráðgjafarfyrirtækið Capacent leiddi nefndina. Að fenginni umsögn hæfnisnefndar skipaði fjármála- og efnahagsráðherra í embættið.

Fjársýsla ríkisins er lykilaðili í fjárstjórn og rekstri ríkisins. Hlutverk hennar er að stuðla að hagkvæmri og árangursríkri starfsemi ríkisins með samhæfingu fjármálastjórnar og þjónustu við ríkisaðila. Stofnunin samræmir reikningsskil ríkisaðila, tryggir tímanlegar og áreiðanlegar upplýsingar um fjármál og starfsemi ríkisins og stuðlar að öruggri og skilvirkri greiðslumiðlun ríkissjóðs. Hún annast þróun og rekstur sameiginlegra upplýsingakerfa ríkisins á sviði fjár- og mannauðsmála.

Í Fjársýslunni, sem er til húsa að Vegmúla 3, starfa 74 starfsmenn.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira