Hoppa yfir valmynd
11. desember 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Bætur almannatrygginga hækka

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur að gefnu tilefni tekið saman upplýsingar um bótahækkanir elli- og örorkulífeyrisþega, útgjaldaþróun almannatrygginga og aðrar réttindabætur sem orðið hafa í almannatryggingakerfinu frá því um mitt ár 2013.

Í lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, er kveðið á um að bætur almannatrygginga breytist árlega í takt við fjárlög hverju sinni. Af því leiðir að bætur almannatrygginga hækki einu sinni á ári og hefur venjan verið að þær hækki frá 1. janúar ár hvert en ekki frá miðju ári þótt gerðir hafa verið kjarasamningar í millitíðinni.

Í fjárlögum fyrir árið 2015 var kveðið á um 3% hækkun bóta almannatrygginga með hliðsjón af verðbólguspá. Hækkunin kom til útborgunar 1. janúar það ár, eða nokkrum mánuðum áður en launþegar fengu sínar hækkanir með nýjum kjarasamningum sem undirritaðir voru sl. sumar.

Í fjárlagafrumvarpi fyrir 2016, sem lagt var fram í september sl., var gert ráð fyrir 9,4% hækkun bóta almannatrygginga árið 2016. Hækkunin tók mið af spá Hagstofu Íslands um þróun vísitölu launa, sem mælir meðallaunahækkun alls vinnumarkaðarins, fyrir árin 2015 og 2016, en í matinu var að vanda launaskrið undanskilið s.s. starfsaldurshækkanir og námsmatshækkanir sem ekki eiga við um bætur almannatrygginga. Þá var enn fremur tekið mið af því að bætur almannatrygginga höfðu þegar verið hækkaðar um 3% 1. janúar 2015. Þessar forsendur voru endurmetnar við aðra umræðu fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2016 með hliðsjón af endurmetinni spá Hagstofu Íslands í nóvember sl. um þróun launavísitölunnar og er nú gert ráð fyrir að bætur almannatrygginga hækki um 9,7% á næsta ári sem er 0,3% hækkun frá upphaflegum forsendum fjárlagafrumvarpsins.

Frá ársbyrjun 2016 hækka bætur um það sem upp á vantaði til að þær fylgi meðallaunahækkun á árinu 2015. Sú hækkun nemur 2,4%. Að auki hækka bætur um 7,1% frá 1. janúar 2016 í samræmi við áætlaða meðallaunaþróun á árinu 2016. Sú hækkun kemur því jafnframt nokkrum mánuðum á undan hækkun launa. Þar sem hluta af hækkun ársins 2015 var flýtt til 1. janúar á því ári og allri hækkun vegna ársins 2016 er flýtt til 1. janúar n.k hækka lífeyris- og örorkubætur meira en sem nemur meðallaunahækkunum skv. launavísitölu án launaskriðs, hvort sem hækkunum er dreift jafnt á mánuði ársins eða tækju gildi á sama tíma og í almennum kjarasamningum.

Aukinn kaupmáttur bóta

Gera má ráð fyrir að uppsöfnuð hækkun bóta lífeyrisþega verði 17,1% á árabilinu 2014-2016, sem er umtalsvert hærra en nemur uppsafnaðri hækkun verðlags á sama tíma, sem er áætluð 7,1%. Munurinn er nálægt 10% og því útlit fyrir að kaupmáttur lífeyrisþega muni aukast verulega á þessum tveimur árum.

Mynd 1: Uppsöfnuð hækkun bóta almannatrygginga 2014-2016 í samanburði við þróun verðlags mælt með vísitölu neysluverðs

Myndir1

Bætt kjör elli- og örorkulífeyrisþega

Auk þess að hækka bætur árlega hafa stjórnvöld frá árinu 2013 markvisst unnið að breytingum á almannatryggingakerfinu með það að markmiði að bæta kjör elli- og örorkulífeyrisþega. Samanlagt er útgjaldaaukning ríkisins vegna breytinganna á árunum 2013 til 2016 áætluð 22,4 milljarðar króna. Árleg varanleg áhrif þessara breytinga nema 7,4 milljörðum króna frá og með árinu 2015. Helstu breytingar eru eftirfarandi:

 • Dregin til baka skerðing á réttindum frá júlí 2009 um að lífeyrissjóðstekjur skerði grunnlífeyri elli- og örorkulífeyrisþega. Áætluð útgjaldaáhrif af þeirri breytingu er 1,4 milljaðar króna á ársgrundvelli.
 • Dregin til baka lækkun á frítekjumarki vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega frá júlí 2009. Þannig var frítekjumarkið hækkað úr 40 þús.kr. á mánuði í 110 þús.kr. en áætluð útgjaldaáhrif þeirra breytinga er 300 milljónir króna á ársgrundvelli.
 • Tímabundið lagaákvæði um hækkun á frítekjumarki vegna atvinnutekna örorkulífeyrisþega úr 27 þús.kr. í 110 þús.kr. framlengt árlega en ella hefðu útgjöld ríkissjóðs lækkað um 1 milljarð króna.
 • Lagaákvæðum til að sporna við víxlverkun bóta almannatrygginga og lífeyrissjóða framlengd árlega en annars hefðu útgjöld ríkissjóðs lækkað um 600-700 milljónir króna.
 • Skerðingarhlutfall tekjutryggingar lækkað úr 45% í 38,35% en hlutfallið var hækkað júlí 2009.
 • Hækkun frítekjumarks vegna lífeyrissjóðstekna ellilífeyrisþega úr 10 þús.kr. á mánuði árið 2013 í 27 þús.kr. árið 2015.
 • 72 m.kr í fjárlögum í hækkun á tekjuviðmiði fyrir svokallaðar frekari uppbætur í almannatryggingakerfinu. Sú uppbót er greidd vegna sérstakra útgjalda s.s. ef lífeyrisþegi hefur mikinn lyfjakostnað, þarfnast umönnunar annars aðila, hefur kostnað af dvöl á sambýli eða vegna kaupa á heyrnartækjum.

Tafla 1: Áætluð útgjaldaaukning almannatrygginga frá 1. júlí 2013.

Tafla1

Útgjaldaþróun almannatrygginga 1998-2016

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur einnig tekið saman yfirlit yfir þróun útgjalda almannatrygginga, þ.e. lífeyristrygginga og vegna félagslegra bóta, síðan 1998.

 • Útgjöld til almannatrygginga eru áætluð 98,3 milljarðar króna við aðra umræðu fjárlaga fyrir árið 2016 og er áætlað að þau aukist að nafnvirði um 10,3 milljarða kr. frá árinu 2015 eða sem svarar til 11,7% aukningar milli ára. Stærstan hluta þeirrar aukningar má rekja til hækkunar bóta 1. janúar 2016 eins og er rakið framar en sú útgjaldaaukning nemur tæplega 9 milljörðum króna.
 • Útgjaldaaukningin frá árinu 2013 nemur 22,3 milljarðar króna á nafnvirði eða sem svarar til 21%.
 • Á 10 ára tímabili frá árinu 2007 til ársins 2016 hafa útgjöldin meira en tvöfaldast.
 • Útgjöld til almannatrygginga jukust um rúmlega 17 milljarða króna. á árunum 2006-2009 eða um sem nemur 44% að nafnvirði. Það skýrist að stærstum hluta af auknum kjarabótum elli- og örorkulífeyrisþega á árunum 2007 og 2008, s.s. lækkun á skerðingarhlutfalli tekjutryggingar úr 45% í 38,35%, hækkun bóta elli- og örorkulífeyrisþega og afnámi skerðinga vegna tekna maka.
 • Í kjölfar áfalla í ríkisfjármálum eftir hrun bankakerfisins haustið 2008 var gripið til aðhaldsráðstafana í þessum málaflokki, m.a. með frystingu bóta og lækkun skerðingarhlutfalls tekjutryggingar úr 45% í 38,35%. Með því var reynt að draga úr útgjaldaaukningunni sem hafði verið í málaflokknum og raunar lækkuðu útgjöldin að nafnvirði um 1,9 milljarða króna árið 2010.
 • Á árinu 2011 jukust útgjöldin á hinn bóginn verulega eða um 12 milljarða króna sem skýrist meðal annars af umtalsverðum bótahækkunum um mitt ár 2011 og í ársbyrjun 2012 í kjölfar kjarasamninga. Auk þess má rekja verulega útgjaldaaukningu til þess að fjármagnstekjur ellilífeyrisþega lækkuðu verulega í kjölfar efnahagshrunsins sem leiddi til minni tekjuskerðinga í bótum almannatrygginga og þar með til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð.
 • Frá árinu 2011 hefur verið áframhaldandi útgjaldavöxtur í málaflokknum að nafnvirði sem skýrist annars vegar af fjölgun bótaþega milli ára sem og hækkun bóta til samræmis við verðlagsforsendur fjárlaga.

Mynd 2 : Samanburður á útgjaldaþróun almannatrygginga 1998-2016 í milljónum króna á verðlagi hvers árs og föstu verðlagi 2016 miðað við vísitölu neysluverðs. Heimild: Fjármála- og efnahagsráðuneytið.

Myndir2

 • Sé litið til útgjalda almannatrygginga 1998-2016 sem hlutfalls af vergri landsframleiðslu (VLF) er áætlað að þau verði 4,2% árið 2016 sem er jafnhátt hlutfall og árið 2014, þrátt fyrir að kröftugur vöxtur hafi verið í VLF milli þessara þriggja ára og að hlutfallið árið 2014 endurspeglar að VLF hafði dregist saman samfellt í 5 ár þar á undan. Að öðru leyti hafa útgjöld almannatrygginga ekki verið hærri á tímabilinu.
 • Ef litið er til hlutdeildar almannatrygginga í undirliggjandi rekstri ríkissjóðs, mælt hér sem brúttó frumútgjöld án óreglulegra liða og atvinnuleysisbóta, þá hefur þessi hlutdeild ekki áður verið jafnhá og útlit er fyrir að verði á árinu 2016. Þannig er gert ráð fyrir útgjöld almannatrygginga verði 16,4% af frumútgjöldum ríkissjóðs, sem er 1,2% hærra en á árinu 2013 og nærri 4% hærra en meðaltal áranna 1998-2008.

Mynd 3 : Útgjaldaþróun almannatrygginga 1998-2016 sem hlutfall af vergri landsframleiðslu (VLF) og sem hlutfall af brúttó frumútgjöldum ríkissjóðs án óreglulegra liða. Heimild: Fjármála- og efnahagsráðuneytið.

Myndir3

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira