Hoppa yfir valmynd
17. desember 2015 Heilbrigðisráðuneytið

Drög að frumvarpi til nýrra lyfjalaga til umsagnar

Lyf
Lyf

Óskað er eftir umsögnum um meðfylgjandi drög að frumvarpi til nýrra lyfjalaga. Frumvarpsdrögin eru unnin af nefnd sem heilbrigðisráðherra skipaði í byrjun þessa árs til að vinna að umbótum í lyfjamálum.  Umsagnarfrestur er til 17. janúar 2016.

Eins og fram kemur í umsögn með frumvarpsdrögunum tóku gildandi lyfjalög gildi árið 1994. Frá gildistöku hefur þeim verið breytt 43 sinnum en þau hafa aldrei sætt heildarendurskoðun. Í umsögninni er bent á að á þessum rúmu tuttugu árum hefur margt breyst í skipulagningu, stjórnsýslu og framkvæmd lyfja- og heilbrigðismála hér á landi. Er þar bent á tilkomu Lyfjastofnunar, sérstakrar sjúkratryggingastofnunar, stofnsetningu sérstakts lyfjagagnagrunns, sameiningu sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu og einnig verulegar og yfirgripsmiklar breytingar á framkvæmd lyfjamála á vegum Evrópusambandsins, svo sem miðlæg skráning lyfja og tilkoma sérstakrar Lyfjastofnunar Evrópu.

Í umsögninni segir enn fremur: Margir og ólíkir hagsmunaaðilar á sviði lyfjamála hafa bent á þörf þess að lögin sæti heildarendurskoðun og hefur það staðið til í lengri tíma. Þörfin fyrir þessa endurskoðun virðist jafnframt brýn sbr. ábendingar Ríkisendurskoðunar til ráðuneytisins. Líkt og segir í nefndum ábendingum Ríkisendurskoðunar er hvatt til þess að lögin sæti heildarendurskoðun, mótuð verði skýr stefna um starfsemi Lyfjastofnunar og opinber umsýsla lyfjamála sameinuð. Til þess m.a. að bregðast við þessum ábendingum hefur þetta frumvarp verið undirbúið.

Tekið skal fram að um er að ræða frumdrög sem hér eru birt til kynningar og umsagnar til að gefa hagsmunaaðilum færi á að hafa áhrif á frumvarpsgerðina. Allra athugasemda er óskað og áskilur nefndin sér rétt til að breyta, taka út eða bæta við ákvæðum við frumvarpið að fengnum athugasemdum og við frekari vinnu við drögin.

Óskað er eftir að umsagnir berist ráðuneytinu fyrir 17. janúar 2016 en vegna tímaáætlunar við frumvarpsgerðina verður ekki unnt að veita lengri frest til umsagna.

Umsagnir skal senda á netfangið [email protected] og skrifa í efnislínu: „Umsögn um frumvarp til lyfjalaga“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira