Hoppa yfir valmynd
17. desember 2015 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Vísindasjóður breytir stöðu krabbameinsrannsókna

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra flutti ávarp á kynningarfundi Vísindasjóðs Krabbameinsfélags Íslands

Krabbameinsfélag Íslands og aðildarfélög þess hafa stofnað 250 milljóna króna vísindasjóð. Hlutverk sjóðsins er að styrkja rannsóknir á orsökum krabbameina, forvörnum, meðferð og lífsgæðum sjúklinga.

Stjórn sjóðsins getur á hverju ári ráðstafað 10% af höfuðstólnum auk tekna á liðnu ári. Um 160 milljónir króna af stofnfé sjóðsins eru framlög sem Krabbameinsfélag Íslands og aðildarfélög þess leggja til, en þar á meðal er hluti af söfnunarfé Krabbameinsfélagsins. Um 90 milljónir króna af stofnfé sjóðsins koma hins vegar úr tveimur eldri sjóðum, Ingibjargarsjóði og Kristínarsjóði, sem hafa verið í vörslu Krabbameinsfélagsins en renna nú inn í hinn nýja vísindasjóð.

Í samtali við Ríkisútvarpið sagði Ragnheiður Haraldsdóttir forstjóri Krabbameinsfélagsins: „Við höfum haft í vörslu okkar tvo góða sjóði, Ingibjargarsjóð og Kristínarsjóð. Þessi sjóðir eru nokkurra áratuga gamlir og samanlagt eru í þeim um 90 milljónir króna. Þannig að þetta eru burðugir og fjársterkir sjóðir. Hins vegar eru starfsreglur þeirra með þeim hætti að þeir geta ekki gengið á höfuðstól og það bætist lítið við. Þegar vaxtakjör eru verri um tíma eins og eftir hrun, þá eru þessum sjóðum töluvert miklar skorður settar hvað varðar að styðja við vísindastörf. Þess vegna urðum við ásátt um, stjórnir þessara tveggja sjóða og Krabbameinsfélags Íslands, að stilla saman strengi og búa til einn öflugan sjóð og treysta því að samlegðaráhrifin yrðu þess valdandi að þau gætu skipt verulegu máli við þróun þekkingar hér á landi".

Á myndinni eru: Jakob Jóhannsson læknir og formaður stjórnar Krabbameinsfélagsins, Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra, Ragnheiður Haraldsdóttir forstjóri Krabbameinsfélagsins og Vigdís Finnbogadóttir fyrrv. forseti Íslands

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum