Hoppa yfir valmynd
17. desember 2015 Dómsmálaráðuneytið

Ýmsar breytingar á lögræðislögum í gildi 1. janúar 2016

Ýmsar breytingar á lögræðislögum taka gildi 1. janúar næstkomandi og vinnur innanríkisráðuneytið nú að undirbúningi þeirra. Meðal þess er að flytja verkefni frá ráðuneytinu til sýslumanns og samráð við sveitarfélög og helstu aðila sem breytingarnar varða. Markmið laganna er að bæta framkvæmd lögræðislaga og tryggja að lagaumhverfi og verklag sé í samræmi við alþjóðlegar mannréttindaskuldbindingar. Lögin eru liður í undirbúningi fullgildingar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Lög nr. 84/2015 fela í sér breytingar á lögræðislögum nr. 71/1997. Meðal helstu breytinga má nefna:

  • Svipting lögræðis er einungis heimiluð tímabundið.
  • Aðeins félagsþjónusta sveitarfélags getur lagt fram beiðni um nauðungarvistun.
  • Lækni er heimilað að nauðungarvista mann í 72 klst. í stað 48 áður og heimilt að óska eftir framlengingu á 21 dags nauðungarvistun í eitt skipti í allt að 12 vikur með úrskurði dómara.
  • Þjóðskrá Íslands heldur skrá um lögræðissvipta menn, skipaða lögráðamenn og ráðsmenn.
  • Sýslumenn hafa aukið eftirlit með lögráðamönnum.

Undirbúningur ráðuneytisins að undanförnu hefur falist í margs konar samskiptum og fundahöldum með þeim aðilum er breytingarnar varða. Nefna má meðal annars að verkefni er lúta að nauðungarvistunum verða flutt frá ráðuneytinu til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt reglugerð nr. 1010/2015, sem sett var á grundvelli hinna breyttu laga sem heimila ráðherra að fela einum sýslumanni þau verkefni.

Sveitarfélögum og Sambandi íslenskra sveitarfélaga hefur verið sent bréf vegna þeirra breytinga að frá áramótum geta einungis félagsþjónustur sveitarfélaga lagt fram beiðni um nauðungarvistun. Þar eru breytingarnar eru reifaðar og áréttað að nauðsynlegt verði að félagsþjónustur hafi bakvaktir á frídögum ef upp kemur þörf á að leggja fram beiðni um nauðungarvistun á þeim dögum.

Breytingar hafa einnig verið kynntar geðlæknum á Landspítala svo og á fundi í ráðuneytinu með fulltrúum frá sjúkrahúsinu, félagsþjónustum, starfsmönnum sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, trúnaðarlæknum, ráðgjöfum, Geðhjálp og öðrum er koma að málefnum er varða nauðungarvistanir.

Vegna breyttra ákvæða í lögunum er snerta sýslumenn, svo sem um tímabundnar lögræðissviptingar, eftirlit með lögráðamönnum, skrár á grundvelli laganna o. fl., hefur þeim verið ritað bréf þar sem helstu breytingar er þá varðar eru reifaðar. Þá hefur ráðuneytið kynnt fyrir dómstólaráði helstu breytingar er snúa að dómstólum.

Samkvæmt breytingum á lögunum mun Þjóðskrá Íslands í stað ráðuneytisins halda skrár yfir lögræðissvipta menn, skipaða lögráðamenn og ráðsmenn. Vegna fyrirhugaðra breytinga vinnur ráðuneytið nú að setningu reglna um aðgang að upplýsingum úr skránum svo sem lögin gera ráð fyrir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira