Hoppa yfir valmynd
20. desember 2015 Utanríkisráðuneytið

Þróunarmál í brennidepli á ráðherrafundi WTO í Nairobi

Þróunarmál voru í brennidepli á ráðherrafundi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO), sem lauk gær í Nairobi í Kenía og voru m.a. samþykktar ívilnandi ákvarðanir til hagsbóta fyrir þróunarríki á sviði vöru- og þjónustuviðskipta. Þá samþykkti fundurinn bann við útflutningsbótum fyrir landbúnaðarvörur og einnig staðfestu þátttökuríki samnings um upplýsingatæknivörur niðurstöðu í samningaviðræðum um endurskoðun samningsins.

Martin Eyjólfsson, fastafulltrúi Íslands í Genf, fór fyrir sendinefnd Íslands á fundinum. Í ávarpi sínu lagði hann áherslu á nauðsyn þess að Alþjóðaviðskiptastofnunin sýndi meiri sveigjanleika í störfum sínum og léti þráteflið í Doha-viðræðunum ekki koma í veg fyrir aðilar stofnunarinnar vinni að þeim málum sem meiri samstaða ríkir um. Lagði hann jafnframt áherslu á mikilvæg þess að unnið yrði að því að setja frekari skorður við ríkisstyrkjum í sjávarútvegi. Þrátt breiðan stuðning á fundinum við tillögu um bann við ríkisstyrkjum sem renna til veiða á ofveiddum fiskistofnum eða ólöglegra fiskveiða náðist ekki samstaða um tillöguna.

Samkomulag um bann við útflutningsbótum fyrir landbúnaðarvörur markar tímamót og lýsti framkvæmdastjóri WTO, RobertoAzevêdo, því yfir við lok fundarins að þessi ákvörðun væri mikilvægasta niðurstaða stofnunarinnar á sviði landbúnaðar frá stofnun hennar fyrir 20 árum. Í samkomulaginu felst að iðnríkjum ber að afnema að mestu útflutningsbætur á landbúnaðarvörurstrax en þróunarríki fá aðlögunartíma til afnáms þeirra. Útflutningsbætur skulu að fullu afnumdar árið 2020 fyrir iðnríki og 2023 fyrir þróunarríkin. Ísland hefur þegar afnumið slíkar bætur.

Í tengslum við ráðherrafundinn staðfestu þau ríki, sem tekið hafa þátt í viðræðum um endurskoðun svokallaðs upplýsingavörusamnings (Information Technology Agreement) Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, framkvæmd samkomulags sem þau náðu í sumar. Endurskoðun samnings felur í sér að þátttökuríkin munu fella niður tolla á rúmlega 200 upplýsingatæknivöruflokkum. Meðal þeirra rúmlega 50 ríkja sem eru aðilar að samkomulaginu eru m.a. ESB, Bandaríkin, Kína, Kanada, Japan, Sviss, Noregur auk Íslands. Á árunum 2012 og 2013 fluttu íslensk fyrirtæki út vörur, s.s. rafeindavogir, röntgentæki og ýmis fjarskiptatæki, að verðmæti samtals 9 milljarða króna sem njóta munu tollfríðinda samkvæmt samningnum.

Þá stýrði Martin samningaviðræðum um ívilnanir á sviði þjónustuviðskipta til handa vanþróuðustu ríkja heims ásamt Francois Kanimba, viðskiptaráðherra Rúanda, og leiddu þær viðræður til samkomulags.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira