Hoppa yfir valmynd
21. desember 2015 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Sameiginleg fréttatikynning sjávarútvegsráðhera Íslands og Færeyja

Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Høgni Hoydal sjávarútvegsráðherra Færeyja
Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Høgni Hoydal sjávarútvegsráðherra Færeyja

Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Högni Höydal sjávarútvegsráðherra Færeyja hafa samið um fiskveiðiheimildir Færeyinga innan íslenskrar lögsögu fyrir næst ár. Einnig var samið um gagnkvæman aðgang að veiðum í lögsögu beggja. Heimildir Færeyinga verða þær sömu á næsta ári og þær eru í ár eða um 5.600 tonn. Þó verður sú breyting á, að þeir fá heimild til að veiða 1.900 tonn af þorski í stað 1.500 líkt og ráðgert hafði verið. Á móti kemur minni veiði á keilu.

Samið var um að líkt og áður að Færeyngar geti veitt loðnu við Ísland sem nemur 5% af ákvörðuðum heildarafla í loðnu á vertíðinni en þó að hámarki 30.000 tonn. Sú breyting var gerð að nú gilda sömu reglur um flottrollsveiðar Færeyinga og Íslendinga.

Engar breytingar voru gerðar á heimildum Íslands til að veiða 1.300 tonn af makríl og 2.000 tonn af Hjaltlandssíld í færeyskri lögsögu, né á gagnkvæmum aðgangi þjóðanna til veiða á kolmunna og norsk-íslenskri síld í lögsögum hvors annars.

Ráðherrarnir ákváðu að stuðla að því að fiskistofur landanna beggja skyldu á næsta ári efla samstarf sín á milli meðal annars með gerð samnings um rafræna afladagbók og frekari samræmingu aflaskráningar. Ráðherrarnir voru sammála um að hefja sameiginlega vinnu til að skoða samspil Höjvikursamningsins um viðskipti milli landanna við samninga á sviði fiskveiða þar með talið takmarkanir sem settar eru vegna vinnslu á loðnu í íslenskri lögsögu.

Að höfðu samráði við grænlensk yfirvöld var ákveðið að haldinn skyldi sameiginlegur fundur sjávarútvegsráðherra Íslands, Færeyja og Grænlands á næsta ári á Íslandi. Þar verður farið yfir fiskveiðihagsmuni þjóðanna í N-Atlantshafi, enda gríðarmiklir sameiginlegir hagsmunir undir.

Að lokum lýstu báðir ráðherrarnir ánægju sinni með þann góða anda sem ríkti á fundinum sem gefur góð fyrirheit um að samstarf landanna muni aukast á næstu árum báðum til hagsbóta.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira