Hoppa yfir valmynd
30. desember 2015 Dómsmálaráðuneytið

Embætti héraðssaksóknara tekur til starfa 1. janúar 2016

Nýtt embætti héraðssaksóknara tekur til starfa 1. janúar 2016, í samræmi við breytingar á lögum um meðferð sakamála og lögreglulögum. Embætti sérstaks saksóknara verður lagt niður frá sama tíma.

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, hefur verið skipaður héraðssaksóknari og Kolbrún Benediktsdóttir, saksóknari, varahéraðssaksóknari.

Embætti héraðssaksóknara mun fara með ákærumeðferð sakamála og saksókn fyrir héraðsdómi, í þeim málum sem ríkissaksóknari hefur haft með höndum fram að þessu. Þá mun embætti héraðssaksóknara annast lögreglurannsóknir og saksókn í skatta- og efnahagsbrotamálum, ásamt málum er varða brot starfsmanna lögreglu í starfi sínu og brot gegn valdstjórninni.

Héraðssaksóknari skal einnig annast móttöku tilkynninga á grundvelli laga nr. 64/2006 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og annast endurheimt ólögmæts ávinnings af hvers kyns refsiverðri háttsemi í tengslum við lögreglurannsóknir við embætti héraðssaksóknara og lögreglustjóraembætta. Um verkefni og starfsskyldur embættis héraðssaksóknara vísast nánar til laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 , sbr. lög nr. 47/2015.

  • Sjá frekari upplýsingar á nýjum vef embættis héraðssaksóknara, hersak.is

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum