Hoppa yfir valmynd
30. desember 2015 Heilbrigðisráðuneytið

Gjaldskrárbreytingar vegna heilbrigðisþjónustu um áramót

Gjöld fyrir heilsugæsluþjónustu sjúkratryggðra verða óbreytt um áramót. Gjöld vegna annarrar heilbrigðisþjónustu sjúkratryggðra hækka að jafnaði um 3,2% 1. janúar nk. til samræmis við forsendur fjárlaga næsta árs sem gera ráð fyrir hækkun verðlags sem þessu nemur.

Ný reglugerð um hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu felur í sér 3,2% hækkun gjalda vegna komu og endurkomu á slysadeild og bráðamóttöku sjúkrahúsa, vegna rannsókna og geisla- og myndgreiningar, fyrir komur til sérgreinalækna utan sjúkrahúsa og á göngudeild sjúkrahúsa, vegna krabbameinsleitar og fyrir sjúkraflutninga.

Í verðlagsforsendum fjárlaga er ekki gert ráð fyrir hækkun gjalda í heilsugæslu og verða komu- og vitjanagjöld þar því óbreytt gagnvart þeim sem eru sjúkratryggðir hér á landi.

Einnig hefur verið birt reglugerð um heilbrigðisþjónustu við þá sem ekki eru sjúkratryggðir hér á landi og greiðslur þeirra fyrir heilbrigðisþjónustu sem eiga að endurspegla raunkostnað.

Flóttamenn eru sjúkratryggðir

Vert er að geta þess að í febrúar sl. var samþykkt á Alþingi frumvarp heilbrigðisráðherra um breytingu á lögum um sjúkratryggingar sem hafði það að markmiði að tryggja rétt flóttafólks til heilbrigðisþónustu. Flóttamenn sem stjórnvöld hafa veitt hæli og einstaklingar sem hafa dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða eru því sjúkratryggðir hér á landi, að því tilskyldu að þeir séu komnir til landsins og að fyrir liggi staðfesting Útlendingastofnunar á því að viðkomandi hafi verið veitt réttarstaða flóttamanns eða hafi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt lögum um útlendinga.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira