Framkvæmdasjóður ferðamannastaða auglýsir eftir umsóknum um styrki
Vegna breyttra reglna um mótframlag er að nýju auglýst eftir umsóknum um styrki til uppbyggingar á ferðamannastöðum. Þær umsóknir sem bárust í kjölfar síðustu auglýsingar (19. september 2015) halda gildi sínu og mun umfjöllun um þær byggjast á grundvelli nýju reglnanna.
Nýjar reglur
Samkvæmt nýjum reglum miðast mótframlag styrkhafa að jafnaði við 20% þegar styrkhafi er sveitarfélag eða einkaaðili en styrkir til svæða í eigu eða umsjón ríkisins verða veittir án kröfu um mótframlag. Mótframlag getur áfram verið í formi beinna útgjalda eða vinnuframlags.
Einnig er gerð breyting á útborgun styrkja. Styrkur greiðist út til styrkþega í samræmi við samþykkta kostnaðar-, verk- og framkvæmdaráætlun. Fyrsta greiðsla, allt að 40%, er greidd við undirritun samnings en áður en til frekari greiðslna kemur skal styrkþegi skila inn framvinduskýrslu, ásamt myndefni, fyrir hvern áfanga.
Hvar ber að sækja um:
Sótt er um á rafrænni þjónustugátt Ferðamálastofu. Byrja þarf á að skrá sig inn með Íslykli eða rafrænum skilríkjum í farsíma. Þegar innskráningu er lokið skal velja flipann "Umsóknir".
Umsóknarfrestur:
Umsóknarfrestur er til miðnættis 2. febrúar 2016. Umsóknir sem berast eftir það eru ekki teknar gildar.
Nánari upplýsingar eru veittar í síma 535-5500 eða með vefpósti [email protected]s.