Hoppa yfir valmynd
20. janúar 2016 Dómsmálaráðuneytið, Innviðaráðuneytið

Forstöðumönnum kynnt ný lög um opinber fjármál

Frá fundi innanríkisráðuneytisins með forstöðumönnum. - mynd
Innanríkisráðuneytið stóð í dag fyrir fundi fyrir forstöðumenn stofnana ráðuneytisins um ný lög um opinber fjármál sem samþykkt voru á Alþingi í desember. Lögin fela í sér margháttaðar breytingar í starfsumhverfi og verklagi ráðuneyta og stofnana við fjárlagagerð. Lögð er ríkari áhersla á langtímaáætlanir, samþættingu stefnumótunar og fjármála og aukna samvinnu ráðuneyta og stofnana.

Lögin tóku gildi í ársbyrjun og verður unnið eftir þeim við gerð fjárlaga næsta árs. Markmið þeirra er meðal annars stefnumörkun í opinberum fjármálum til lengri og skemmri tíma, vandaður undirbúningur áætlana og lagasetning, skilvirk fjármálastjórn og virkt eftirlit.

Frá fundi innanríkisráðuneytisins með forstöðumönnum.

Á fundinum kynnti Ólafur Reynir Guðmundsson, sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, helstu nýmæli laganna og Ingilín Kristmannsdóttir og Pétur U. Fenger, skrifstofustjórar í innanríkisráðuneytinu, fóru yfir nýtt verklag, samráð og áætlanagerð ráðuneytisins og stofnana sem nýju lögin leiða af sér. Í kjölfarið voru umræður.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta