Auðveldari skil ársreikninga fyrir 80% fyrirtækja
Einfaldari skil ársreikninga hjá litlum fyrirtækjum, lægri umsýslukostnaður og bætt viðskiptaumhverfi eru helstu markmiðin með breytingum á lögum um ársreikninga sem Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra lagði fram á Alþingi í dag.
Meðal helstu nýmæla í frumvarpinu má nefna að litlum fyrirtækjum - svonefndum örfélögum - verði heimilt að skila einfaldari útgáfu af ársreikningi til ársreikningarskrár. Við skil á skattframtali getur forsvarsmaður örfélags hakað við þar til gerðan reit á skattframtalinu og tölvukerfi skattsins sér sjálfvirkt um að útbúa ársreikning byggðan á fyrirliggjandi gögnum. Til örfélaga teljast fyrirtæki sem ekki fara yfir mörkin á a.m.k. tveimur af eftirfarandi þáttum: 20 m.kr. í niðurstöðutölu efnahagsreiknings, 40 m.kr. í hreina veltu og þrjú ársverk að meðaltali.Um 80% fyrirtækja á íslandi teljast til örfélaga og mun frumvarpið því hafa víðtæk áhrif til einföldunar í íslensku atvinnulífi.
Verði frumvarpið að lögum er stigið stórt skref í þá átt að bæta skil á ársreikningum. Með því móti verður umhverfi viðskiptalífsins gagnsærra, óvirkum félögum mun fækka og heildaryfirsýn yfir markaðinn verður skýrari - en það er ein af forsendum þess að hægt sé að ráðast með markvissum hætti gegn kennitöluflakki.