Veglegirstyrkir til Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur
Forsvarsmenn ellefu stórra fyrirtækja úr íslensku atvinnulífi og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, undirrituðu í dag samninga um veglega styrki til Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Undirritunin fór fram í Hátíðasal Háskóla Íslands að viðstaddri Vigdísi Finnbogadóttur, Illuga Gunnarssyni mennta- og menningarmálaráðherra og fjölda annarra gesta.
Við sama tækifæri opnuðu Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra og Aþena Vigdís Eggertsdóttir, dótturdóttir Vigdísar, nýja heimasíðu Vigdísar á nokkrum tungumálum. Vinnu við síðuna var hrundið af stað í tilefni af 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna á síðasta ári fyrir styrk frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu og utanríkisráðuneytinu.
Styrkjum fyrirtækjanna verður varið til daglegrar starfsemi vegna undirbúnings Vigdísarstofnunar – alþjóðlegrar miðstöðvar tungumála og menningar, sem mun starfa undir merkjum Mennta-, vísinda- og menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO). Með starfsemi alþjóðlegu tungumálamiðstöðvarinnar er ætlunin að heiðra störf Vigdísar í þágu tungumála og halda áfram því brautryðjendastarfi sem hún hefur unnið á alþjóðavettvangi sem fyrsti og eini velgjörðarsendiherrra tungumála í heiminum hjá UNESCO.
Á horni Suðurgötu og Brynjólfsgötu rís nú bygging Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur en hún mun hýsa alþjóðlegu tungumálamiðstöðina auk kennslu og rannsókna í erlendum tungumálum. Áætlað er að hún verði tekin í notkun um næstu áramót. Þar verður einnig Vigdísarstofa og aðstaða fyrir ráðstefnur og sýningar um framandi tungumál og menningu sem opnar verða gestum og gangandi. Sérstök áhersla verður lögð á að miðla upplýsingum um tengsl Íslands við umheiminn í sögu og samtíð til erlendra ferðamanna. Í þessu nýja þekkingarsetri felast gríðarleg tækifæri til nýsköpunar, ekki síst í tengslum við vísindastarfsemi og menningartengda ferðaþjónustu.
(Byggt á frétt frá Háskóla Íslands)