20ára afmæli Neyðarlínunnar
Skyndihjálparmaður Rauða krossins var útnefndur eins og gert hefur verið undanfarin ár og er þá leitast við að veita viðurkenningu þeim sem með snarræði og kunnáttu hefur jafnvel bjargað mannslífi. Í ár hlaut þá útnefningu stúlka á áttunda ári, Karen Sæberg Guðmundsdóttir, fyrir að hafa sýnt snarræði þegar móðir hennar leið út af í heitum potti og hún hélt höfði hennar uppúr vatninu á meðan hún sendi yngri dreng sem með þeim var til að kalla eftir aðstoð.
Einnig voru veitt verðlaun í eldvarnargetrauninni 2015 en þau hlutu skólabörn víða um land fyrir að tala fyrir eldvörum á heimilum sínum og er það Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna sem veitir þær viðurkenningar.
Skyndihjálparmaður Rauða krossins var valin Karen Sæberg Guðmundsdóttir í Reykjavík.
Ólöf Nordal innanríkisráðherra flutti ávarp við setningu Einn-einn-tveir dagsins í dag.
Í ávarpi sínu minntist innanríkisráðherra á önnur verkefni Neyðarlínunnar, svo sem að annast rekstur neyðarfjarskiptakerfisins Tetra og hvernig félagið hefði þannig lagt fram sinn skerf til að byggja upp þessi nauðsynlegu fjarskipti um land allt í samstarfi við aðra hagsmunaaðila. Einnig nefndi ráðherra að í gær hefðu forráðamenn Neyðarlínunnar og fjarskiptasjóðs skrifað undir viljayfirlýsing um að Neyðarlínan taki að sér að byggja upp síðari áfanga við hringtengingu ljósleiðara á Vestfjörðum. Með því er bæði tryggður aðgangur almennings að neyðarnúmerinu einn-einn-tveir og um leið tryggð virkni öryggisfjarskipta Tetra kerfisins og vöktunarbúnaðar Vaktstöðvar siglinga. Sagði ráðherra þetta gott dæmi um enn eitt verkefnið í farsælu samstarfi fjarskiptasjóðs og Neyðarlínunnar.